15.3.2013 22:41

Föstudagur 15. 03. 13

Þegar gjaldeyrishöftin komu til sögunnar fyrir rúmum fjórum árum var talað um að þau giltu í 10 mánuði. Þau eru enn og nú berast fréttir um að nauðsynlegt sé að auka heimildir Seðlabanka Íslands til að framfylgja þeim. Enginn stjórnmálaflokkur veit hvernig hann ætlar að losna við höftin. Þau eru síðasta hálmstrá Samfylkingarinnar til að rökstyðja ESB-aðild, með henni megi losna við höftin. ESB segir hins vegar að fyrst verði að losna við höftin og síðan sé unnt að ljúka aðildarviðræðunum.

Stjórnmálaflokkarnir sameinast um að auka heimildir seðlabankans til að fara ofan í fjármál einstaklinga og fyrirtækja og jafnvel grípa til forvirkra aðgerða af því að bankinn lætur sig ekki varða um hvort þeir sem hann rannsakar liggi undir grun. Hið furðulega er að ekki er um að ræða neitt eftirlit með þessari starfsemi seðlabankans. Hann fer sínu fram án þess að þurfa að standa neinum reikningsskil. Það stangast á við kröfur um gegnsæi og reikningsskil innan stjórnsýslunnar og allt sem sagt var í rannsóknarskýrslunni til alþingis.

Tillögur rannsóknarnefndarinnar lentu greinilega í annarri skúffu hjá þingmönnum en þeir opna þegar þeir fjalla um gjaldeyrishöftin og völd seðlabankans.

Allt hið versta hefur gerst vegna gjaldeyrishaftanna sem spáð var: Þau festast í sessi, stjórnmálamenn sjá sér hag af því að halda lífi í þeim, eftirlitskerfi var komið á fót sem krefst meiri og meiri valda, kerfið mismunar einstaklingum og fyrirtækjum og telur sig ekki þurfa að lúta eftirliti neins. Þetta er sem sagt orðinn dæmigerður jarðvegur fyrir opinbera spillingu, jarðvegur þar sem stjórnlyndum vinstrisinnum líður best.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagði eins og ekkert væri sjálfsagðara að fyrirtækið nyti „algjörrar undanþágu“ frá gjaldeyrishöftunum. Það mun vera unnt að nálgast lista yfir fyrirtæki sem njóta þessarar sérstöðu með leyfi seðlabankans. Slíkir undanþágulistar eru hluti allra skömmtunarkerfa og aðferðir við að komast inn á eru ekki alltaf gegnsæjar.