24.3.2013 22:50

Sunnudagur 24. 03. 13

Forvitnilegt er að verða vitni að því hvernig fréttastofa ríkisútvarpsins gerir sem minnst úr vandræðaganginum á alþingi þegar forseti þingsins hefur tvisvar sinnum gripið til þess óvenjulega ráðs að boða ekki þingfundi af því að ekki er unnt að fjalla um mál vegna óstands á stjórnarheimilinu.

Menn ættu að ímynda sér hvernig látið væri á fréttastofunni ef ástæðan fyrir því að ekki þætti fært að halda fundi vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn væri til vandræða á þingi. Þá yrði ekki opnað fyrir fréttir án þess að glymdi í eyrum manna hvílíkt hneyksli væri á ferð og það meira að segja eftir að starfsáætlun þingsins mælti fyrir um þinglok.

Nú eru ekki-þingfréttir faldar inni í fréttatímanum og ekkert gert með þótt ekki aðeins sé kreppa á stjórnarheimilinu heldur einnig þingkreppa ef nota má það orð til að lýsa þeirri staðreynd að alþingi er óstarfhæft vegna sundurlyndis innan stjórnarflokkanna.

Í Morgunblaðinu var sagt frá ágreiningi milli Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur þingforseta og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, flokkssystranna, og talið að Ásta Ragnheiður væri að seilast til nýrra valda með  því að boða ekki þingfundi. Vissulega er það rétt. Ástæðan fyrir að hún kemst upp með það er að forsætisráðherrann er aðeins að nafninu til – Jóhanna hefur engin völd lengur af því að enginn fer að hennar ráðum. Jóhanna er hins vegar í gamalkunnu hlutverki: að spilla fyrir öðrum.

Eina úrræði Ásta Ragnheiðar er að boða ekki fundi. Staðreynd er að valda- og áhrifaleysi forsætisráðherra gerir þingið óstarfhæft.

Frá þessu er ekki greint á neinn hátt í fréttatímum ríkisútvarpsins. Þar skilja menn ekki vandræði í starfi alþingis nema unnt sé að rekja þau til þess sem er kallað málþóf.

Fráleitt er fyrir stjórnarandstöðuna að láta undan kröfum stjórnarflokkanna um afgreiðslu mála við þessar aðstæður. Þetta á til dæmis við um stjórnarskrármálið – afgreiðsla þess er alfarið í höndum stjórnarflokkanna og stjórnarandstaðan á að skerpa ábyrgð þeirra á málinu í stað þess að skapa stjórnarflokkunum undankomuleið. Eiga þeir það skilið? Fyrir landsdómsmálið? Icesave-málið? Eða öll önnur óstjórnarmál síðustu fjögurra ára?