10.3.2013 19:36

Sunnudagur, 10. 03. 13

Evrópskir stjórnmálamenn  kveða sífellt fastar að orði um þróun mála innan ESB.

Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, segir að ástandið minni sig á það sem lesa megi um það sem gerðist í Evrópu fyrir 100 árum, 1913, þegar menn héldu að eilífur friður mundi ríkja í Evrópu en þjóðirnar sigldu grunlausar í átt til fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Bruno Le Maire, fyrrverandi Evrópu- og landbúnaðarmálaráðherra Frakka, segir að mótmæli Ítala í nýlegum þingkosningum séu heilbrigð viðbrögð, þau séu ákall um meira lýðræði. Þjóðum Evrópu líði illa. Unga fólkið eygi enga framtíð. Atvinnulausir kveiki í sér fyrir utan skráningarstöðvar. Góðgerðastofnanir hafi ekki lengur undan við að aðstoða þá sem eigi ekki málungi matar. „Hvað gerir Evrópusambandið?“ spyr franski stjórnmálamaðurinn og svarar: „Það sýnir yfirlætisfullt afskiptaleysi. Afstaða þess ýtir undir lýðskrumara. Evrópu [ESB] verður ekki bjargað nema með annars konar Evrópu [ESB].“

Hefðu Íslendingar sem vara við aðild að Evrópusambandinu látið þau orð falla sem hér eru tíunduð hefðu þeir verið taldir gengnir af göflunum vegna óvildar í garð sambandsins ef marka má harkaleg viðbrögð ESB-aðildarsinna við gagnrýni á ESB sem er hreinn barnaleikur miðað við það sem fram kemur í hinum tilvitnuðu orðum.

Hér er haldið uppi starfsemi á vegum stækkunardeildar ESB undir merkjum Evrópustofu sem rekin er af almannatengslafyrirtækinu Athygli í umboði þýska fyrirtækisins Media Consulta fyrir 1,4 milljónir evra í tvö ár. Þessi stofa býður til dæmis fræðslu með fjarbúnaði sem kynnt er á vefsíðum sveitarfélaga og menn geta nýtt sér gegn 1.000 kr. greiðslu. Þar er dregin upp allt önnur mynd  af þróuninni innan ESB en fram kemur í orðum hinna þaulreyndu evrópsku stjórnmálamanna sem vitnað er til hér að ofan. Evrópustofa dregur upp glansmynd af ESB í von um að vinna Íslendinga til fylgis við aðild.

Mikilvægi þessa áróðurs fyrir íslenska ESB-aðildarsinna kemur best í ljós við lestur hinna harkalegu ummæla sem þeir hafa látið falla vegna krafna um að einhliða ESB-áróðrinum skuli hætt. Í aðdraganda þingkosninganna er ESB þátttakandi til stuðnings einum stjórnmálaflokki, Samfylkingunni, enda keppist Össur Skarphéðinsson, frambjóðandi flokksins, við að dásama starf stofunnar og skapa henni skjól sem utanríkisráðherra.