5.10.2001

Háskólinn 90 ára

Háskóli Íslands,
90 ára,
5. október, 2001.„Það er aldrei nema sannleikur, að þjóð vor er fámenn, og í fámenni hennar liggur aðalástæðan til fátæktar hennar. En látum svo vera, að þjóð vor sje allra þjóða fámennust og að háskóli vor verði af sömu ástæðu allra háskóla minnstur, ástæða gegn háskólanum verður það aldrei talið, því að einhversstaðar verður minsti háskólinn að vera.“

Þessa röksemdafærslu er að finna í álitsskjali forstöðumanna hinna þriggja æðri skóla landsins með lagafrumvarpinu um Háskóla Íslands á alþingi árið 1909. Þar reifa þeir Jón Helgason, settur forstöðumaður prestaskólans, Lárus H. Bjarnason lagaskólastjóri og Guðmundur Björnsson landlæknir, fyrir hönd læknaskólans, sjónarmið með og á móti því, að háskólinn sé stofnaður. Þeir segja, að hver skólanna þriggja sé í raun ekki annað en ein af höfuðdeildum þeirra stofnana, sem háskólar nefnist. Á hinn bóginn skuli ekki látið staðar numið við þrjár deildir, þegar farið sé að stofna háskóla á annað borð. Hann eigi öllu öðru fremur að veita kennslu í þjóðlegum fræðum, sögu landsins, bókmenntum og tungu. Engin slík fræðsla hafi verið í landinu og menn hafi orðið að fara til útlanda til þess að fá tilsögn í þeim fræðum, sem snerta íslenska tungu, sögu og bókmenntir. Þó að slíkt hafi ef til vill verið talið óhjákvæmilegt fyrr á tímum vegna safnanna í Kaupmannahöfn, sé sú ástæða fallin nú, þar sem búið sé að gefa út allt, sem snerti sjálfa fornöldina og útgáfa fornbréfanna komin fram á 16. öld. En jafnvel þótt svo hefði ekki verið, hafi sjálfstæðishugsjónin náð þeim tökum á þjóðinni, að ekki geti komið til mála að hafa aðalból íslenskra vísinda á nokkrum öðrum stað en í höfuðstað landsins. Leggja þeir til, að tekin verði upp kennsla í íslenskum fræðum um leið og Háskóli Íslands sé stofnaður.

Forstöðumennirnir telja, að stofnun háskóla á Íslandi verði hin áhrifamesta lyftistöng til framfara í hverskonar menningu. Þungamiðja alls íslensks menntalífs færist inn í landið. Menntunin verði við það í orðsins fyllstu merkingu íslensk og þjóðleg, og hyrningarsteinninn með því lagður að sjálfstæðu íslensku vísindalífi. Sjálfstæðistilfinning þjóðarinnar eflist og glæðist og vegur hennar aukist bæði inn á við og út á við. Íslendingar hafi að vísu notið margra og mikilla hlunninda við Kaupmannahafnarháskóla, en þau hafi einnig á marga vegu orðið þjóðinni dýrkeypt. „Það tjón verður aldrei metið til peningaverðs, sem þjóð vor hefur beðið af Hafnarferðum sumra sona sinna, slíkar sem heimturnar á þeim hafa viljað verða á öllum tímum. Stofnun háskóla hjer á landi mundi ekki hvað síst í þessu tilliti verða ábatavænleg, utanförum stúdenta til náms fækkaði, og því færri mundu þeir verða, sem ekki skilaði heim aftur eða skilaði heim aftur sem alls-ónýtum, eyðilögðum mönnum“, segir þar og hvetja þessir vísu menn, að lokum til þess, að háskólinn komist á fót á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní 1911, Jóni verði ekki meiri sómi sýndur liðnum með neinu öðru, og áreiðanlega ekki neinu, sem honum hefði verið geðfelldara.

Góðir áheyrendur!

Þegar við komum saman og minnumst 90 ára afmælis Háskóla Íslands á hátíð í lok glæsilegrar afmælisviku, er gott að hafa hugfast, hve skólinn, sjálfstæðisþrá og sjálfsmynd þjóðarinnar eru samofin. Rökin fyrir stofnun skólans voru, að Íslendingar gætu aldrei staðið menningarlega á eigin fótum án háskóla, sem hefði að markmiði að efla innri styrk þjóðarinnar og skipa henni á þann bekk í samfélagi þjóðanna, sem saga hennar krefðist.

Frá upphafi voru miklar vonir bundnar við Háskóla Íslands, en hann tók ekki flugið á svipstundu. Í ritstjónargrein Skírnis á 50 ára afmæli skólans segir, að saga háskólans frá 1911 til 1940 hafi verið tímabil kyrrstöðu, þótt skólinn hafi átt á að skipa mjög mætum og framsýnum mönnum. Hér hafi eimt eftir af kotungshugsunarhætti frá nýlendutímabilinu, sem magnaðist við kreppuhugarfarið. Þá hafi einhver vottur af öfundsýki í garð embættismanna og annarra menntaðra manna átt drjúgan þátt í afstöðu almennings og valdamanna. Hins vegar segir, að skólinn hafi verið í stöðugum vexti vegna breyttra viðhorfa í þjóðfélaginu síðan 1940, en 17. júní það ár var háskólahúsið vígt og lauk þá erfiðu sambýli skólans og alþingis við Austurvöll.

Enginn treystir sér til að segja, hver hefði orðið vegferð íslenska þjóðfélagsins án Háskóla Íslands og ef hann hefði ekki þegar fest rætur, þegar þjóðinni var á átakatímum síðari heimsstyrjaldarinnar kippt harkalega inn í hringiðu alþjóðamála og varð að taka afstöðu til gæslu eigin hagsmuna og samstarfs við aðra á algjörlega nýjum forsendum. Við, sem erum jafnaldrar íslenska lýðveldisins, teljum að minnsta kosti Háskóla Íslands eina helstu máttarstoð þess þjóðlífs, sem við viljum njóta, þróa og móta. Og er ég viss um, að sú er jafnframt skoðun alls þorra þjóðarinnar. Enginn vill vera án Háskóla Íslands, þvert á móti er það stolt okkar, að vegur hans sé sem mestur.

Þess vegna veit ég, að það hefur glatt marga að lesa orð Páls Skúlasonar háskólarektors í sérstöku afmælisblaði Morgunblaðsins skólanum til heiðurs, þegar hann sagði: „Ég fullyrði að Háskóli Íslands er nú betur í stakk búinn en nokkru sinni fyrr að veita nemendum sínum trausta fræðslu á flestum sviðum fræða og vísinda og hann er sannkölluð menntastofnun sem hvetur nemendur sína til að leita sér sífellt meiri og betri menntunar. Það er skylda okkar að nýta þá möguleika sem nútíminn býður okkur.“

Og minn gamli prófessor og rektor Ármann Snævarr segir í afmælisviðtali í Stúdentablaðinu: „Í heild er ég mjög ánægður með þróun Háskólans síðustu áratugi. Mér finnst ákaflega margt hafa áunnist og yfirleitt vel haldið á málefnum skólans. Stofnanirnar rísa hver á fætur annarri og ég verð var við mikinn rannsóknaranda og áhuga meðal háskólakennara. Einnig tel ég ríkja jákvætt samband milli stúdenta og skólans.“

Af þessum orðum má ráða, að Háskóli Íslands hefur elst vel en þó er hann síungur eins og skóla- og vísindastofnunum í stöðugri sannleiksleit ber að vera. Er mikils virði fyrir allt mennta- og vísindastarf þjóðarinnar, hve markvisst hefur verið unnið að því að styrkja innra starf skólans hin síðari ár með því að stórefla og bæta rannsóknanám. Sé ekki ávallt leitað lengra og hærra á menntabrautinni verður stöðnun og síðan afturför; þess vegna skiptir sköpum, að forystusveitin sé sókndjörf og setji sér metnaðarafull og háleit markmið.

*

Forystuhlutverk Háskóla Íslands er ótvírætt og honum hefur verið sýndur mikill og margvíslegur trúnaður. Þannig var sjálfsagt og eðlilegt, að skólanum skyldi falin umsjón handritanna, þegar Danir afhentu Íslendingum dýrgripina fyrir þrjátíu árum. Var enn staðfest með því, að skólinn gætir menningarlegs fjöreggs þjóðarinnar í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Ítreka ég þá skoðun, að í tilefni 100 ára afmælis Stjórnarráðs Íslands árið 2004 skuli tekin ákvörðun um að reisa hús hér á háskólalóðinni í tengslum við Þjóðarbókhlöðuna, sem hýsi handritin og stofnanir íslenskrar tungu og fræða. Hið sama á við enn þann dag í dag og fyrir 90 árum, að aðalból íslenskra fræða er innan Háskóla Íslands og þar ber að leggja alhliða rækt við þau við hinar bestu aðstæður. Á aldarafmæli skólans árið 2011 mætti hæglega taka þetta hús íslenskrar tungu í notkun, frumdrög að því hafa þegar verið unnin undir forystu menntamálaráðuneytisins í samvinnu við háskólann, fulltrúa stofnana og Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns.

Ég nefni þessa byggingu sérstaklega hér og nú. Forsendur hennar eru ekki hinar sömu og þeirra, sem verða til vegna kraftanna í hinu alþjóðlega háskólasamfélagi, þegar knúið er á og hvatt til vísindagarða í tengslum við tækni- og þekkingarfyrirtæki. Hefur Háskóli Íslands nýlega kynnt framsýna stefnu, sem miðar að því að virkja þessa krafta einkaframtaksins til að styrkja stöðu sína, atvinnulífsins og þjóðarinnar allrar. Þótt við lítum ekki á íslensk fræði í þeirri andrá, veita þau okkur á tímum alþjóðavæðingar enn sem fyrr fótfestu og sterkustu menningarræturnar, og rótlaus þjóð viljum við ekki verða.

Frá upphafi hefur hollusta þjóðarinnar við Háskóla Íslands mótast af því, að hann færi henni vel menntaða forystumenn á sem flestum sviðum. Skólinn þarf í senn að leggja rækt við hið klassíska og tileinka sér hið nýjasta. Í alþjóðlegum samanburði stöndum við Íslendingar vel að vígi í hugvísindum. Við getum hins vegar ekki við það unað, að frá íslenskum háskólum komi hlutfallslega færri raungreinamenntaðir kandidatar en hjá nokkurri annarri þjóð á sambærilegu menntunarstigi. Minnumst þess, að atvinnustarfsemi hér heima og erlendis byggist sífellt meira á raunvísindalegri þekkingu. Til fyrirtækja af þeim toga er einkum höfðað, þegar skipulagt er þekkingarþorp eins og nú hefur verið kynnt af miklum stórhug hér við Háskóla Íslands.

Með þekkingarþorpi eða þorpum, þarf að huga að því að mennta sem flesta Íslendinga til að starfa innan þeirra. Hámenntuðu erlendu fólki hefur fjölgað hér á landi síðustu misseri við raungreinastörf. Er gleðilegt, að hér hefur skapast alþjóðlegur starfsvettvangur á þessum sviðum. Er enginn betur til forystu fallinn en Háskóli Íslands, þegar rætt er um nauðsyn þess að efla raungreinakennslu innan íslenska skólakerfisins. Hvet ég til þess, að skólinn nýti yfirburði sína á þessum fræðasviðum til að snúa vörn í sókn. Heiti ég liðsinni mínu eftir því sem þess er óskað.

*

Snemma árs 2000 var efnt til háskólaþings til að líta yfir stöðu og þróun háskólamenntunar í landinu. Í tilefni af því hitti ég meðal annars nemendur úr þeim átta skólum, sem starfa hér á háskólastigi. Dró ég saman viðhorf þeirra í samtölunum með þessum orðum:

Í fyrsta lagi vilja nemendur, að skólar hafi skýr námsmarkmið og framfylgi þeim með góðri kennslu. Þeir spyrja hvaða rétt þeir hafi, ef þeim finnst kennarar ekki standast þær kröfur, sem til þeirra eru gerðar. Þeir sætta sig ekki við skipulagsleysi og vilja fá tækifæri til að segja álit sitt á því, sem betur má fara, hvernig staðið er að kennslu og ákvörðunum um skólastarfið. Í mörgum tilvikum er greinilega þörf á að auka tengsl kennara og nemenda, skýra og skerpa samskiptaferli og sýna, að tekið sé mark á ábendingum um það, sem betur má fara.

Í öðru lagi vilja nemendur fá skýr skilaboð frá háskólunum. Fjölbreytni í háskólanámi eykst með ári hverju og nýir háskólar tileinka sér aðrar kennsluaðferðir en hinir eldri. Aukin samkeppni milli skóla kallar á, að þeir skýri vel fyrir væntanlegum nemendum hvaða kröfur eru gerðar til þeirra. Skiptar skoðanir eru meðal nemenda um, hvort háskólar eigi að gera strangar kröfur við innritun eða gefa nemendum færi á að sýna hæfileika sína eftir eina önn eða tvær í háskóladeild. Enginn telur í sjálfu sér óeðlilegt, að sett séu skilyrði við skráningu í skóla eða deildir, en miklu skiptir, að öll slík skilyrði séu rækilega kynnt.

Ég rifja þetta upp hér vegna þess, að markmið háskóla er að búa nemendur sem best undir að njóta sín í samfélaginu og til að þróa það áfram með skynsamlegum hætti. Höfði háskóli ekki á skýran hátt til nemenda og finni þeir ekki góðan og skýran tilgang til að verja þar bestu árum ævi sinnar, slær skólinn ekki á rétta strengi.

*

Sjálfstæði Háskóla Íslands hefur aldrei verið meira í 90 ára sögu hans. Fjárveitingar til skólans hafa vaxið á grundvelli samninga við menntamálaráðuneytið og fjárstreymi innan skólans hefur tekið á sig nýja mynd. Kjör starfsmanna skólans hafa batnað. Allt hefur þetta starf einkennst af mikilli bjartsýni um framtíð Háskóla Íslands og hann á vissulega bjarta tíma framundan, þróist þjóðfélag okkar áfram með þeim góða vexti á öllum sviðum, sem einkennt hefur síðustu ár.

Vöxturinn stafar ekki síst af því, að vísindastarf, rannsóknir og þróun, skipa nú stærri sess en nokkru sinni fyrr í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Þar má enn sjá árangur af starfi innan vébanda Háskóla Íslands. Rannsóknarráð Íslands hefur brugðist við þessari þróun með nýjum áherslum við úthlutun styrkja, þar sem áréttað er, að vísindi og rannsóknir vaxi og dafni í takt við þjóðlíf, sem bæði þarf trausta undirstöðuþekkingu og tæknikunnáttu til að leysa verkefni samtímans, og menntun ungra vísindamanna standist alþjóðlegar kröfur og mæti þörfum samfélagsins. Hefur ráðið kynnt nýja styrki, öndvegisstyrki, sem eiga að stuðla að samstarfi vísindamanna um framúrskarandi grunnvísindi í alþjóðlegu samhengi.

Fullyrði ég, að hvergi er meiri samkeppni um opinbert fé hér á landi með alþjóðlega mælikvarða að leiðarljósi en við úthlutun styrkja til grunnrannsókna og á þeim forsendum get ég hiklaust mælt með því að ráðstöfunarfé sjóða á þessu sviði sé aukið. Og undanfarna mánuði hefur verið unnið að endurskoðun laga um þetta efni. Vísaði Davíð Oddsson forsætisráðherra til þess í stefnuræðu sinni á alþingi á dögunum, að vægi málaflokksins yrði aukið með því að stefnumótun færi fram í ráði undir stjórn forsætisráðherra. Þar myndu ráðherrar auk vísindamanna og fulltrúa atvinnulífs móta stefnu í málefnum rannsókna og þróunar. Hef ég látið vinna frumvörp um vísinda- og tækniráð annars vegar og opinberan stuðning við vísindarannsóknir hins vegar.

Góðir áheyrendur!

Hinar björtu vonir, sem voru bundnar við Háskóla Íslands hafa ræst. Við megum þó ekki leggja árar í bát í þeirri trú, að skriðurinn haldist áreynslulaust. Við verðum nú eins og fyrir níutíu árum, að hafa góð rök á takteinum, þegar rætt er um framtíð og eflingu skólans. Í samtímanum eru háskólar ekki stofnanir í hefðbundinni merkingu þess orðs, þeir eru rannsókna- og þekkingarmiðstöðvar, sem höfða til sífellt fleiri og keppa að mörgu leyti innbyrðis sem fyrirtæki. Þeir eru frekar en nokkru sinni í fararbroddi við alhliða þróun þjóðfélaga og eflingu efnahags- og atvinnulífs.

Reynsla fyrstu níu áratuganna í sögu Háskóla Íslands kennir okkur, að víðsýni og trú á mikinn dug þjóðarinnar og menningu hennar er besta veganestið, þegar hugað er að framtíðinni. Í þeim anda skulum við strax hefjast handa við að undirbúa aldarafmæli skólans og tveggja alda afmæli Jóns Sigurðssonar í þeirri vissu, að skólinn tryggi þá enn sem fyrr hin rótföstu menningartengsl og sé jafnframt hin áhrifamesta lyftistöng til framfara á öllum sviðum.