11.3.2013 22:10

Mánudagur 11. 03. 13

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók í dag kl. 17  fyrstu skóflustunguna að nýbyggingu fyrir starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands, Húsi íslenskra fræða. Efnt var til hátíðlegrar athafnar af þessu tilefni í tjaldi fyrir austan Þjóðarbókhlöðuna en hin nýja hús á að rísa þar sem Melavöllurinn stóð áður.

Það var vel við hæfi að sjá kvikmyndina Lincoln sama dag og ráðherrar og stuðningsmenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur töldu saman atkvæði gegn vantrauststillögunni sem Þór Saari flutti. Kvikmyndin snýst um hvernig Abraham Lincoln vann að því að mynda meirihluta í fulltrúdeild Bandaríkjaþings fyrir 13. breytingartillögu við stjórnarskrá Bandaríkjanna sem hefur að geyma ákvæði um afnám þrælahalds.

Tillaga Þórs Saari var felld með 32 atkvæðum gegn 29, Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra og þingmaður VG, sat hjá og Atli Gíslason, fyrrv. VG-þingmaður, var fjarverandi. Í gær var tilkynnt að þeir félagar og Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi, fyrrv. þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrv. aðstoðarmaður Jóns Bjarnasonar, ætluðu að stofna til framboðs í komandi þingkosningum. Þeir félagar slógu ekki margar keilur í dag.

Þetta framtak Þórs Saari er sýndarmennska frá upphafi til enda.