27.3.2013

Bildt, Össur, EES og Kýpur

Á árunum 2004 til 2007 sátum við Össur Skarphéðinsson saman í nefnd sem kannaði tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Meginniðurstaða nefndarinnar var að hagsmunum Íslands væri mjög vel borgið með samningum um evrópska efnahagssvæðið (EES), hann hefði staðist tímans tönn. Íslendingar hefðu hins vegar ekki nýtt aðild að EES sem skyldi. Þeir hefðu mun fleiri tækifæri til áhrifa á löggjöf ESB en nýtt hefðu verið.

Af grein Össurar Skarphéðinssonar í Fréttablaðinu 26. mars 2013 má ráða að hann kjósi að gleyma því sem hann lærði í störfum nefndarinnar. EES-samstarfið lifir góðu lífi og tækifærin bíða enn eftir að þau séu nýtt. Össur kýs í grein sinni að vitna í Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, sem á í vök að verjast heima fyrir vegna vaxandi gagnrýni Svía á starfshætti innan ESB og meiri þunga en nokkru sinni fyrr í andstöðu þeirra við upptöku evru. Bildt er talsmaður ESB-sambandsríkis og evru-sinni. Hann veit að andstaða Íslendinga við ESB-aðild hefur áhrif í Svíþjóð. Hann munar ekki um að rægja EES-samstarfið til að fegra eigin málstað.

Carl Bildt taldi Össuri trú um í júlí 2009 að Íslendingar væru á hraðferð inn í ESB. Hann hafði ekkert fyrir sér í málinu en Össur beit á öngulinn. Össur hrífst enn af fullyrðingastíl Carls Bildt og sannfærist um að fullveldi Íslendinga aukist við að flytja það til Brussel.

Að telja þjóðum trú um að fullveldinu sé betur borgið á evru-svæðinu en utan þess eða ESB verður æ erfiðara. Haustið 2008 höfðu íslensk stjórnvöld til dæmis vald og þrek til að halda bönkum opnum þrátt fyrir hrun fjármálakerfis. Á Kýpur var bönkum lokað 15. mars og hafa ekki verið opnaðir 26. mars. Kýpverjar hröktust úr einu vígi í annað vegna krafna frá Brussel. Hvað segir þetta dæmi um gildi fullveldis á örlagastundu?