20.3.2013 19:30

Miðvikudagur 20. 03. 13

Á Kýpur hafa menn ákveðið að loka bönkum fram  yfir helgi. Ríkisstjórnin veit ekki til hvaða ráða hún á grípa eftir að þing Kýpur hafnaði afarkostum ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum einum rómi í atkvæðagreiðslu þriðjudaginn 19. mars.

Menn spyrja hvort ekki sé til neitt „plan B“ á Kýpur. Hvaða leið ætlar ríkisstjórnin að fara til tryggja starfsgrundvöll bankanna? Hvað gerist ef ekki verður unnt að gera það? Ekki er unnt að loka bönkum til allrar framtíðar.

Á Íslandi hefur ríkisstjórnin ákveðið að alþingi komi ekki saman. Enginn fundur var haldinn á alþingi í dag. Á vefsíðu alþingis er ekki birt nein dagsetning um næsta þingfund. Ástæðan fyrir því að alþingi kemur ekki saman til fundar er að þar ríkir upplausn.

Það er á ábyrgð ríkisstjórnar og þingforseta að sjá til þess að alþingi sé starfhæft og þar sé unnt að leiða mál til lykta.

Þingmenn ætluðu sjálfir að hafa lokið störfum sínum föstudaginn 15. mars. Þeim tókst ekki að gera það á formlegan hátt, nú er hins vegar hætt að kalla þingmenn saman til fundar. Er ekki einfaldast að halda enga fundi fram að kosningum? Þær verða eftir fáeinar vikur og þar af taka páskar eina.

Íslendingar búa betur en Kýpverjar. Eins og málum er komið er best að alþingi sé lokað þar til þjóðin hefur kosið nýtt fólk til setu þar. Kýpverjar þola hins vegar ekki til lengdar að bankar séu lokaðir.