28.3.2013 20:00

Fimmtudagur 28. 03. 13

Flugum 07.40 í morgun á vegum Vita ferðaskrifstofunnar til Bilbao í Baskalandi.

Alþingi lauk störfum aðfaranótt skírdags. Á ruv.is segir af þessu tilefni:

„Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra átti síðasta orðið á Alþingi þetta kjörtímabilið, sem voru hennar síðustu á Alþingi, enda lætur hún nú af störfum eftir nærri 35 ára þingsetu. „Og oft hefur umræðan í þingsölum verið óvægin, einkum hin síðustu ár. Kannski óvægnari og hatrammari en oft áður. Af þeim sökum hafa síðustu vikur mínar verið daprasta tímabilið á mínum þingferli.“

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að Jóhanna sé reið þegar hún kveður alþingi, það væri ólíkt henni að vera ekki reið og hafa allt á hornum sér. Ástæðuna fyrir reiði hennar er að finna innan Samfylkingarinnar og meðal nýrra forystumanna hennar. Í kveðjuræðu á landsfundi Samfylkingarinnar 1. til 3. febrúar 2013 sagði Jóhanna meðal annars:

„Til að svo megi verða [að stjórnarskrármálið klárist á þinginu] þurfum við hinsvegar órofa samstöðu þeirra þingmanna sem hingað til hafa stutt málið – ekki bara innan stjórnarflokkanna, heldur einnig Hreyfingarinnar og Bjartrar framtíðar. Því verður ekki trúað að sú samstaða rofni á lokasprettinum, einmitt þegar úthaldið og pólitíska þrekið má ekki bresta.

Og hversvegna liggur okkur á að samþykkja þær nú á þessu þingi er spurt. Svarið er einfalt, því ef svo illa færi að Sjálfstæðismenn næðu hér völdum að loknum næstu kosningum þá er ekki á vísan að róa, að efnislega héldu tillögur stjórnlagaráðs í höndum þeirra,

enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn lýst því yfir að hann telji sig á engan hátt bundin af þeim þjóðarvilja sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni.“

Þessi áform Jóhönnu um afgreiðslu á nýrri stjórnarskrá runnu út í sandinn, ekki vegna andstöðu sjálfstæðismanna heldur vegna hins að eftirmaður hennar á formannsstóli í Samfylkingunni, Árni Páll Árnason, hafði hvorki „úthaldið“ né „pólitíska þrekið“ sem hún taldi ráða úrslitum um afgreiðslu málsins.Það er von að hún sé daprari en venjulega enda studdi hún ekki stjórnarskrártillögu Árna Páls.