26.3.2013 22:50

Þriðjudagur 26. 03. 13

Forvitnilegt er að fylgjast með gagnrýni á Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands, fyrir formennsku hans í evru-ráðherrahópnum. Hann tók skýrt til orða í gær um að líta bæri á aðgerðir á Kýpur sem fordæmi, almenningur ætti ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Hann var knúinn til að draga í land þegar hann var sakaður um að hafa búið til template eða skapalón fyrir framtíðarlausn vegna banka á heljarþröm.

Dijsselbloem sagði í dag að hann vissi ekki einu sinni hvað orðið template þýddi og hann hefði ekki verið að kynna neitt slíkt með orðum sínum. Hann og talsmenn Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórnar ESB hafa í dag hamrað á að Kýpur hafi sérstöðu þangað verði ekki leitað að fordæmum vegna annarra ríkja.

Lúxemborgarar eru reiðir yfir að Dijsselbloem hafi nefnt land þeirra til sögunnar þegar hann benti á ríki á evru-svæðinu þar sem bankakerfið væri ofvaxið hagkerfi viðkomandi ríkis. Þegar bankar hrundu hér á landi hneyksluðust menn víða yfir að leyfð hefði verið þensla í bankakerfi á þann veg að það yrði nífalt eða tífalt stærra en hagkerfið. Sagt er að í Lúxemborg sé fjármálakerfið 20falt stærra en hagkerfið.

Greinilega er stefnt að þinglokum fyrir páska og virðist stefna í að „litla stjórnarskrárfrumvarpið“ verði afgreitt, það er líflina fyrir stjórnlagaráðstillögurnar. Í frumvarpinu er ákvæðum breytt til að unnt verði að breyta stjórnarskránni án þess að rjúfa þing. Við Skúli Magnússon, dósent og héraðsdómari, ræddum þetta frumvarp í þætti mínum á ÍNN. Þáttinn má sjá hér.

Það eru engin rök fyrir að breyta stjórnarskránni á þennan hátt. Allt kjörtímabilið höfum við heyrt stjórnlagaráðsmenn gera lítið úr þingmönnum. Nú bjóða þeir sig sem hæst hafa hallmælt alþingi sig fram til þings!