2.3.2013 23:00

Laugardagur 02. 03. 13

Árni Páll Árnason átti ekki annarra kosta völ en ákveða að leggja stjórnarskrármálið til hliðar og knýja ekki á um afgreiðslu þess fyrir þinglok. Málið er alls ekki í þeim búningi að unnt sé að afgreiða það. Í raun er ákveðin hula yfir frumvarpinu enn þótt það hafi verið til meðferðar á alþingi frá hausti 2011.

Alþingi sendi tillögur stjórnlagaráðs óbreyttar til ráðsins með nokkrum fyrirspurnum. Þá var málið sent til skoðunar hjá hópi lögfræðinga. Þingnefndin gerði lítið eða ekkert með tillögur þeirra. Lögfræðingarnir töldu að óháður aðili ætti að leggja mat á tillögurnar. Feneyjanefndin gerði fjölda athugasemda. Farið var yfir þær og þingnefndin tók afstöðu til nokkurra þeirrs. Nýjar breytingartillögur þingnefndarinnar eru að sjá dagsins ljós á 87 bls.

Árni Páll vill að þingmenn nú skuldbindi þingmenn eftir kosningarnar 27. apríl til að halda áfram meðferð stjórnarskrármálsins á grundvelli þeirra tillagna sem hafa verið smíðaðar af stjórnlagaráði og meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Vill Árni Páll að þessi skipan mála verði ákveðin með þingsályktun. Ósk Árna Páls er skiljanleg tilraun til að skapa frið innan Samfylkingarinnar og gagnvart Hreyfingunni. Hún er hins vegar marklaus, væntanlegir þingmenn verða ekki bundnir á þennan hátt í neinu máli og síst af öllu stjórnarskrármálinu.