18.3.2013 22:55

Mánudagur 18. 03. 13

Augljóst virðist af fréttum að aðfaranótt laugardagsins hafi fjármálaráðherrar evru-ríkjanna og viðmælendur þeirra frá Kýpur ekki gert sér neina grein fyrir hvaða afleiðingar það hefði að sparifjáreigendur á Kýpur ættu að taka þátt í björgun bankakerfisins þar með neyðarlánveitendum og sætta sig við eignaupptöku.

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórnar ESB hafi gert kröfur um að almennir sparifjáreigendur kæmu að uppgjörsmálum vegna Kýpur. Þetta fólk fjarlægist þann heim meira og meira þar sem menn þurfa að leita eftir lýðræðislegu umboði við töku ákvarðana. Allt önnur sjónarmið ráða hjá því en stjórnmálamönnum.

Reynsluleysi Kýpverjanna eða raunverulegur ótti við gjaldþrot ríkisins vegna skulda bankanna kann að hafa ráðið því að kýpverskir embættismenn með sjálfan forsetann í broddi fylkingar féllust á hinar fráleitu kröfur sem meira að segja Þjóðverjar vilja tæplega viðurkenna að hafa samþykkt, að minnsta kosti taka ráðamenn í Berlín ekki til varna fyrir samkomulagið við Kýpverja á sannfærandi hátt. Að baki kröfunni á hendur sparifjáreigendum býr að einhverju leyti von um að ná sér niðri á Rússum sem sagðir eru eiga um 15 milljarða evra í bönkum á Kýpur.

Rússarnir búa sig undir að fara með peningana sína og leita sér að öðru skjóli. Því er slegið fram að með þessu samkomulagi við Kýpur hafi evru-hópnum, ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tekist að eyðileggja fjármálageirann á Kýpur. Hann muni aldrei bera sitt barr eftir þetta. Bankar á Kýpur hafi verið rúnir trausti um langa framtíð.

Hér skal engu slegið föstu um réttmæti þessara yfirlýsinga. Auðvitað er ekki unnt að útiloka að Rússagullið og sérstaða þess á Kýpur hafi verið eitur í beinum ráðamanna í ESB og þeir hafi ákveðið að hrekja Rússa á brott af eyjunni á þennan hátt. Sé svo er enn réttmætara en ella af Kýpverjum að segja að hinir ríku og voldugu innan ESB beiti þá fjárkúgun. Kýpverjar eru nógu litlir til að Brusselmönnum þyki réttmætt að sparka í þá á sama tíma og ekkert er gert við Frakka þótt þeir brjóti eigin skuldbindingar um samdrátt í ríkisútgjöldum.

Stjórnmálamenn víða innan ESB hafa skömm á því hvernig Brusselmenn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn koma fram gagnvart Kýpverjum. Þetta gildir þó ekki um utanríkisráðherra Íslands eða fylgismenn hans í röðum ESB-aðildarsinna. Þeir lýsa áfram yfir að best sé fyrir Íslendinga að feta í fótspor Kýpverja og lifa í skugga hinna stóru í ESB og verða að sætta sig við allt sem þeir vilja eða gert er í þeirra nafni.