17.3.2013 22:41

Sunnudagur 17. 03. 13

Í dag var síðasti þáttur minn á ÍNN um stjórnarskrármálið sýndur. Þar ræddi ég við Skúla Magnússon, dósent við lagadeild Háskóla Íslands og héraðsdómara. Hann hefur gagnrýnt efni tillagna stjórnlagaráðs og hvernig að gerð þeirra og meðferð hefur staðið. Hann gagnrýnir einnig „litla stjórnarskrárfrumvarpið“ sem Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson hafa lagt fram í sáttaskyni. Þar er gert ráð fyrir „skemmri skírn“ við breytingar á stjórnarskrá á næsta þingi. Margrét Tryggvadóttir í Hreyfingunni hefur sett afgreiðslu þessa frumvarps í uppnám með breytingartillögu sem er ætlað að „smygla“ nýjum stjórnlögum í gegnum þingið.

Þessi staða stjórnarskrármálsins er með ólíkindum. Breyting á stjórnarskránni var fyrsta stórmálið sem Jóhanna Sigurðardóttir kynnti eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009. Nú er vika eða 10 dagar til þingloka og stjórnarskrármálið er í meira uppnámi en áður vegna ágreinings innan Samfylkingarinnar.

Þeir sem kynnst hafa heift Jóhönnu Sigurðardóttur í þessu máli vita að hún hugsar Árna Páli þegjandi þörfina fyrir að segja sannleikann um stöðu stjórnarskrármálsins og að vonlaust sé að ljúka því og ekki borgi sig að knýja fram atkvæðagreiðslu um það vegna ágreinings innan stjórnarliðsins. Orðrómur er um að Jóhanna standi að baki tillögu Margrétar Tryggvadóttur. Jóhanna ber það til baka. Ástæðulaust er að taka slíkar yfirlýsingar af hennar hálfu hátíðlegar. Segði hún annað væru dagar stjórnar hennar taldir.

Árni Páll taldi að Jóhanna yrði til friðs fengi hún að sitja áfram sem forsætisráðherra. Það hefur reynst misskilningur.

Í kvöld dönsuðu norðuljós yfir Reykjavík eins og spáð hafði verið vegna óláta á sólinni.