16.3.2013 22:41

Laugardagur 16. 03. 13

Í dag ókum við upp í Reykholt í  Borgarfirði og tókum þátt í fjölmennri og vel heppnaðri athöfn þegar Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði sýninguna Saga Snorra. Sem formaður stjórnar Snorrastofu flutti ég ávarp og má lesa það hér.

Kenningar eru um að hópur sjálfstæðismanna sé lagður af stað inn í ESB án Sjálfstæðisflokksins. Hið furðulega er að hópurinn vill kjósa vinstri stjórn til að leiða sig í sambandið. 

Málið snýst ekki um ESB og Sjálfstæðisflokkinn heldur hvort menn vilji vinstristjórn áfram eða ekki og það utan ESB því að Ísland verður aldrei aðili án stuðnings Sjálfstæðisflokksins, frekar en stjórnarskránni verður ekki breytt án stuðnings flokksins.  Hinir ESB-sinnuðu munu líklega flytja úr landi eins og fleiri þegar vinstristjórnin heldur áfram.

Verði mynduð ríkisstjórn að loknum kosningum án Sjálfstæðisflokksins verður hún vinstri stjórn eins og sú sem nú situr. Ekkert breytist, hnignunin heldur áfram. Engum öðrum er um að kenna en þeim sem styðja ekki Sjálfstæðisflokkinn.