17.6.2001

Háskóli Íslands 90 áraHáskóli Íslands,
90 ára,
Alþingishúsið,
17. júní 2001.


Hér á þessum stað var Háskóli Íslands stofnaður á hádegi 17. júní 1911, á
aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta.

Klemenz Jónsson landritari las á dönsku símskeyti frá Friðriki konungi
hinum áttunda, sem óskaði þess, að háskólinn mætti verða til heiðurs fyrir
vísindin og til gagns fyrir land og lýð. Hlýddu menn standandi á kveðju
konungs og því næst lét Björn M. Olsen rektor hrópa nífalt húrra fyrir
konungi. Þá afhenti landritari háskólaráði skólann til þess að hann tæki
til starfa lögum samkvæmt.

Hátíðarbragur var mikill eins og hæfir hinni virðulegu umgjörð, en þegar
frásögn af atburðinum er lesin, vekur setningarræða Björns M. Ólsens mesta
athygli fyrir víðsýni og djúpan skilning á markmiði háskóla. Í ljósi
sögunnar er ekki vafi á því, að framsýni hans hefur ráðið miklu um
velgengni skólans í 90 ár. Rektor vildi, að háskólinn yrði vísindaleg
stofnun, sem nyti fullkomins rannsóknar- og kennslufrelsis. ?Frjáls
rannsókn og frjáls kennsla er eins nauðsynleg fyrir háskólana og
andardrátturinn er fyrir einstaklinginn," sagði hann og síðar: ?Út frá
góðum háskólum ganga hollir andlegir straumar til hinna ungu menntamanna og
frá þeim út í allar æðar þjóðarlíkamans. Þessir straumar hafa vekjandi
áhrif á þjóðernistilfinninguna en halda henni þó í réttum skorðum, svo að
hún verður ekki að þjóðdrambi eða þjóðernisrembingi. Sannmenntaður maður
elskar þjóðerni sitt og tungu en hann miklast ekki af þjóðerni sínu,
fyrirlítur ekki aðrar þjóðir né þykist upp yfir þær hafinn."

Á þessi boðskapur ekki síður erindi til okkar allra, þegar við höldum
þjóðhátíð á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar árið 2001 en þegar Háskóli
Íslands var stofnaður. Á 90 ára afmæli sínu fagnar skólinn óskoruðu
sjálfstæði í eigin málum. Sjálfur setur hann sér reglur innan marka laganna
og ræður starfsmenn sína.

Björn M. Ólsen vildi, að háskólinn víkkaði sjóndeildarhring þjóðar sinnar
til alls hins menntaða heims, leitin eftir hinum huldu sannindum vísindanna
væri öllum háskólum sameiginleg, enda væru þeir kosmopolitískar stofnanir
um leið og þeir væru þjóðlegir. Styrkja ætti unga efnilega námsmenn til að
fara til annarra háskóla að afloknu námi hér. Annars væri hætt við að
sjóndeildarhringur þeirra yrði of þröngur og Háskóli Íslands að nokkurs
konar kínverskum múr, sem byrgði fyrir útsýnina til alheimsmenningarinnar.

Þessi brýning á enn erindi til okkar, þótt háskólinn sé vissulega vel í
stakk búinn til að veita fræðslu í mörgum greinum auk framhalds- og
doktorsmenntunar og margir vísindamanna hans hafi náð frábærum árangri á
heimsmælikvarða, þarf ávallt að víkka sjóndeildarhringinn og tækifærin til
þess eru fleiri en nokkru sinni. Engan, sem hér var staddur fyrir 90 árum,
grunaði, að árið 2001 yrðu átta skólar á háskólastigi í landinu. Þessum
skólum og íslenska þjóðfélaginu í heild er mikill styrkur af því, hve
margir Íslendingar hafa notið menntunar og stundað vísindastörf við fremstu
háskóla heims. Það er ekki síður nauðsynlegt nú en árið 1911 að sameina
háskólakrafta heima og erlendis.

Fyrsti rektor Háskóla íslands sagði, að framtíð skólans væri undir því
komin, að honum tækist æ betur og betur að ávinna sér traust og hylli
þjóðarinnar, því að það væri hún, sem bæri hann uppi af almanna fé og til
hennar yrði að leita um fjárveitingar til allra nauðsynlegra umbóta.

Þegar almenningur er spurður um álit sitt á opinberum stofnunum á líðandi
stund, er Háskóli Íslands jafnan í fremstu röð og skipar oft efsta sætið.
Skipan fjárhagslegra samskipta ríkisvaldsins við skólann er nú
samningsbundin og ríkir um hana góð sátt, öndvert við það, sem oft hefur
verið síðustu 90 ár.
Góðir áheyrendur!

Með hina framsýnu setningarræðu Björns M. Ólsens að leiðarljósi er auðvelt
að komast að þeirri niðurstöðu, að Háskóla Íslands hafi vegnað prýðilega á
fyrstu nítíu árum sínum. Skólinn hefur markað glæsileg spor í sögu
þjóðarinnar. Án skólans og allra, sem við hann hafa stundað nám og starfað,
væri íslenska þjóðfélagið einfaldlega svipur hjá sjón. Við færum þeim
þakkir, sem eiga heiðurinn af því að leiða skólann á þennan farsæla hátt.

Í tæp 30 ár var skólinn til húsa hér í Alþingishúsinu, líkaði vistin illa
og þótti ríkja mikið skilningsleysi meðal alþingismanna á því að veita fé
til háskólabyggingar. Sú rimma var leyst með því að heimila skólanum að
reka happdrætti til að standa straum af byggingarkostnaði og flutti hann í
eigið húsnæði árið 1940.

Happdrættið er skólanum enn mikil lyftistöng og þörfinni fyrir nýtt húsnæði
verður seint fullnægt. Ætti ríkisvaldið að koma til móts við óskir skólans
í byggingarmálum með því að dreifa einkaleyfisgjaldi vegna happdrættisins á
alla, sem stunda sambærilega starfsemi, og greiða auk þess hæfilegan
viðhaldskostnað af byggingum skólans. Með þeim hætti tryggði alþingi og
ríkisstjórn best á 90 ára afmælinu og til langframa, að húsnæðismál Háskóla
Íslands væru í samræmi við eðlilegan vöxt hans og kröfur.

Ég lýk máli mínu með því að óska íslensku þjóðinni til hamingju með Háskóla
Íslands - megi hann halda áfram að vaxa og dafna okkur öllum til heilla!