1.3.2013 22:20

Föstudagur 01. 03. 13

Athygli beinist einkum að fylgi Framsóknarflokksins í könnun Gallups sem birt var í dag tæpum tveimur mánuðum fyrir kjördag. Flokkurinn fengi 22% atkvæða (16 þingmenn) og hefur ekki mælst stærri í 17 ár, það er síðan 1996, skömmu eftir að hann settist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Í þessari könnun nú fékk Sjálfstæðisflokkurinn 30% (21 þingmann) en 36% fyrir mánuði og hefur þó landsfundur flokksins verið haldinn í mánuðinum. Þetta er skrýtilega lágt fylgi og ætti að verða kosningastjórn og frambjóðendum hvatning til dáða.

Eftir landsfundinn hóf Sjálfstæðisflokkurinn auglýsingaherferð í hljóðvarpi. Þar fylgir sá galli gjöf Njarðar að ógerlegt er að greina á milli D eða B þegar hlustað er á þulinn. Skorað er á kosningastjórnina að skrifa Sjálfstæðisflokkurinn undir auglýsingarnar í stað XD.

Samtals fá Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fylgi 52% kjósenda og 37 þingmenn í þessari könnun. Eru þetta ekki stærstu tíðindin í könnuninni? Ríkisstjórnarflokkarnir fá ekki nema 22% fylgi, Samfylking 15% (10 þingmenn) og vinstri grænir (VG) 7% (5 þingmenn), stjórnarflokkarnir samtals með aðeins 15 þingmenn, einum færri en Sjálfstæðisflokkurinn á nú á þingi og hlaut hann mjög lélega kosningu í apríl 2009.

Björt framtíð, flokkur Guðmundar Steingrímssonar, fengi 16% (11 þingmenn) gengi könnun Gallups eftir í kosningum. Þriggja flokka stjórn þess flokks, Samfylkingar og VG fengi aðeins 26 þingmenn, þarf 32 til meirihluta á þingi. ESB-aðildarviðræðuflokkunum vex ekki ásmegin. Verði þeir á þessu róli fram yfir kosningar er það enn ein sönnun þess að ESB-aðildina ber ekki hátt í þessum kosningum.

Stuðningsmenn og andstæðingar Sjálfstæðisflokksins gera þá kröfu til flokksins að hann fái meira en 30% í kosningum. Þess vegna er staða hans gjarnan helsta umræðuefnið þegar rætt er um úrslit kannanna þar sem flokkurinn stendur ekki undir þeim væntingum.

Vissulega er nauðsynlegt að Sjálfstæðisflokkurinn styrki stöðu sína en staða stjórnarflokkanna hlýtur þó að vera stuðningsmönnum þeirra meira áhyggjuefni en staða Sjálfstæðisflokksins í augum stuðningsmanna hans. Nýir formenn hafa verið valdir til forystu í Samfylkingu og VG, takist þeim ekki að gera sig gildandi ná flokkar þeirra sér ekki á strik.