21.3.2013 21:50

Fimmtudagur 21. 03. 13

Það er eftir öðru að rúmum mánuði fyrir kosningar taki fréttastofa ríkisútvarpsins og ráðherrar höndum saman til að varpa rýrð á álfyrirtækin Alcoa og Norðurál vegna starfskjara sem þau njóta hér á landi á grundvelli samninga við íslenska ríkið. Ráðherrarnir hafa haft rúm fjögur ár til að taka á málum þessara fyrirtækja en láta nú eins og það verði tafarlaust að gera eitthvað í málinu. Kosningabaráttan tekur á sig ýmsar myndir.

Kastljós er meðvirkt með ráðherrunum sem hlut eiga að máli og Indriði H. Þorláksson sem síðast lét að sér kveða við gerð Icesave-samningana er kallaður í Spegillinn og kynntur til samtalsins á þann veg að ætla mætti að hann hefði vakið athygli Kastljóss á að þarna væri mál sem hentaði til að kasta rýrð á álfyrirtækin. Ráðherrarnir fengu tækifæri til að stunda eftirlitsiðju sína að tala illa um það sem vel gengur í landinu. Þarf einhver að undrast að ekki hafi tekist að laða erlenda fjárfesta til landsins í stjórnartíð þessa fólks?

Hannes Pétursson skáld skrifar neyðarlega um Evrópuvaktina  í Fréttablaðið í dag, ég vakti athygli á grein hans á Evrópuvaktinni.

Ögmundur Jónasson innaríkisráðherra kveinkar sér í Fréttablaðinu í dag undan því sem ég sagði hér á síðunni 14. mars þegar Varðberg efndi til fundar með Stefáni Eiríkssyni, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um rannsóknarheimildir lögreglu. Ögmundur vill þrengja þessar heimildir og hefur lagt fram frumvarp í þá veru fyrir alþingi. Það er strandað í nefnd sem vill styrkja þennan þátt í starfi lögreglunnar í þess að veikja hann.

Á Eyjunni í dag sá ég á tveimur stöðum vitnað til þess að ég hefði á árinu 1991 ritað grein í Morgunblaðið og varað við þeim sem lögðust gegn EES-samstarfinu af því að það kynni að leiða til þess að þjóðin glataði sjálfstæði sínu, menningu og tungu. Nú eru brátt 20 ár frá aðild okkar að EES, sjálfstæðinu, menningunni og tungunni hefur ekki verið unnið mein. Tilvitnunin í þessi orð mín er enn eitt hálmstrá þeirra sem berjast fyrir ESB-aðild. Ég bendi þeim í vinsemd á að lesa það sem ég hef skrifað og varað við ESB-aðildinni og gef Eyjunni heimild til að endurprenta það eins oft og ritstjórnin vill.