27.3.2013 17:55

Miðvikudagur 27. 03. 13

Í kvöld ræði ég við Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Unnur Brá er að ljúka fyrsta kjörtímabili sínu á þingi. Hún hefur vakið athygli fyrir skeleggan málflutning í mörgum málum, einkum Icesave-málinu og ESB-málinu.

Við ræðum um þinglokin. Þegar við hittumst um klukkan 14.00 í dag var enn óljóst hvort tækist að ljúka þingstörfum í dag. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra vildi ekki sætta sig við samkomulag sem Katrín Jakobsdóttir flokksformaður hafði gert kvöldið áður.

Verði „litla stjórnarskrárfrumvarpið“ samþykkt, það er tillaga Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar til að halda lífi í tillögum stjórnlagaráðs (án þess að það sé í raun gert) verða tvö ákvæði um breytingu á stjórnarskránni í gildi. Annars vegar það sem þau leggja til, það er að tveir þriðju þingmanna samþykki breytingu og síðan 40% atkvæðisbærra manna og hins vegar ákvæðið í núgildandi stjórnarskrá, það er um einfaldan meirihluta þingmanna, þingrof og síðan samþykki óbreyttra tillagna á nýju þingi.

Að stjórnarskrárbrölti Jóhönnu Sigurðardóttur í rúm fjögur ár skuli lykta á þennan hátt sýnir að í alltof mikið var ráðist án þess að samstaða væri tryggð meðal þeirra sem ber að taka ákvarðanir um breytingar á stjórnarskrá. Hið sama á við um hitt stórmál Jóhönnu-stjórnarinnar, ESB-aðildarumsóknina, að henni var staðið jafnilla enda viðskilnaðurinn í samræmi við það.

Viðtalið við Unni Brá verður á dagskrá klukkan 20.00 og 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Í dag skrifaði ég grein í Fréttablaðið og má lesa hana hér.