3.3.2013 22:41

Sunnudagur 03. 03. 13

Nú eru hafnar umræður um hvort evru-ríkin eigi kannski að láta Kýpur sigla sinn sjó, landið sé svo lítið og fámennt að ekki taki að halda því á fjárhagslega á floti með neyðarláni. Olli Rehn, efnahagsmálastjóri ESB, segir að vísu að það kunni að skapa kerfislegan vanda að Kýpur hverfi á brott. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, gefur ekki mikið fyrir kerfisvandann.

Þetta er forvitnileg umræða fyrir þá sem telja að hinn endanlegi stöðugleiki finnist í efnahagsmálum Íslendinga með inngöngu í ESB og upptöku evru. Sé Kýpur of lítið til að skipta máli til eða frá í evru-samhengi – hvað yrði þá um Ísland í evru-landi ef hér yrðu áföll?

Í Bretlandi hefur dómsmálaráðherrann lagt til að aðild Breta að mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindadómstólnum í Strassborg verði endurskoðuð. Lögfesting í stjórnartíð Verkamannaflokksins á mannréttindasáttmálanum hafi verið mistök og leitt til of mikillar erlendrar íhlutunar í bresk innanríkismál. Ráðherrann segir þetta nú í umræðum um viðbrögð við aukakosningum í Eastleigh þar sem frjálslyndir sigruðu, UKIP-sjálfstæðissinnar urðu í öðru sæti og Íhaldsflokkurinn hinu þriðja. Dómsmálaráðherrann er íhaldsmaður og telur baráttu fyrir brotthvarfi frá mannréttindasáttmálanum geta styrkt flokk sinn meðal almennings.

Þessi afstaða dómsmálaráðherrans sýnir að stjórnmálaumræður í Bretlandi eru annars eðlis en hér.Þar geta menn rætt mál af þessum toga án þess að misvitrir álitsgjafar eða bloggarar pólitískrar rétthugsunar umturnist.

Hér má stjórnmálaflokkur ekki álykta gegn áróðursskrifstofu ESB án þess að látið sé eins og óbætanlegt skemmdarverk hafi verið unnið og hætta sé á að þjóðin verði útskúfuð úr samfélagi síðaðra.