9.3.2013 23:30

Laugardagur 09. 03. 13

Eftir að Jón Ásgeir Jóhannesson réð Mikael Torfason sem ritstjóra Fréttablaðsins hefur Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri blaðsins, sagt upp störfum. Hún hafði starfað við blaðið frá því að það var stofnað fyrir 12 árum. Þá hefur Þórður Snær Júlíusson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, sagt upp störfum. Uppsögn hans má einnig rekja til ráðningar Mikaels Torfasonar. Steinunn og Þórður Snær rituðu leiðara í Fréttablaðið ásamt Ólafi Þ. Stephensen sem starfar enn á blaðinu.

Brotthvarf þessara lykilstarfsmanna staðfestir að Jón Ásgeir Jóhannesson réð Mikael Torfason á Fréttablaðið til að herða eigendatökin á blaðinu og til að tryggja að Jón Ásgeir gæti átölulaust skipt sér af ritstjórn blaðsins í eigin þágu. Þörf Jóns Ásgeirs fyrir jákvæð skrif um sjálfan sig og viðskiptamál sín eru alkunn. Hann hefur átt Fréttablaðið eða síðasta orð um efni þess í tæp 11 ár. Fyrsta árið átti hann blaðið á laun nú er blaðið eign eiginkonu hans.

Fyrir 10 árum beitti Jón Ásgeir Fréttablaðinu með Samfylkingunni í kosningabandalagi gegn Davíð Oddssyni og Sjálfstæðisflokknum. Sameiginlega tókst Jóni Ásgeiri og forystu Samfylkingarinnar ekki að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum árið 2003. Nú er Fréttablaðið vettvangur þeirra sem vinna með Samfylkingunni að því að koma Íslandi í Evrópusambandið og þar birtast enn óvildargreinar í garð Sjálfstæðisflokksins og ásakanir um að hann lúti stefnumótandi forystu Davíðs Oddssonar.

Frá því að Jón Ásgeir eignaðist Fréttablaðið hefur óvild í garð Davíðs Oddssonar verið rauður þráður í skrifum blaðsins.

Fastir dálkahöfundar í Fréttablaðinu láta það ekki á sig fá þótt Jón Ásgeir herði tökin á blaðinu í þágu eigin hagsmuna. Höfundarnir eru líka flestir ef ekki allir þeirrar skoðunar að Ísland eigi erindi í Evrópusambandið auk þess sem þeim fellur aldrei velvildarorð í garð Davíðs Oddssonar. Baráttan fyrir ESB-aðild og gegn Davíð Oddssni er pólitískur samnefnari og drifkraftur þeirra sem enn skrifa í Fréttablaðið samhliða varðstöðunni um viðskiptahagsmuni og persónu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Fáheyrt er að auðmaður og fjölskylda hans haldi úti dagblaði í þeim tilgangi sem hér er lýst og enn undarlegra að um fríblað sé að ræða sem dreift er inn á heimili fólks á þéttbýlissvæðum án þess að nokkur óski eftir blaðinu.  Jón Ásgeir álítur að hann nái markmiði sínu betur með því að ráða Mikael Torfason sem ritstjóra.