6.3.2013 23:55

Miðvikudagur 06. 03. 13

Öllu var aflýst sem átti að vera á dagskrá minni fyrri hluta dags, þar á meðal erindi um öryggis- og varnarmál sem ég átti að flytja á Rotary-fundi í hádeginu. Klukkan 11.00 sendi lögregla frá sér tilkynningu um að fólk ætti að halda sig innan dyra vegna óveðursins sem gekk yfir borgina. Við svo búið var fundur Rotary-klúbbs Reykjavíkur blásinn af. Samtök atvinnulífsins héldu hins vegar aðalfund sinn sá ég í fréttum.

Þegar stjórnstöð almannavarna tilkynnti um kl. 13.30 að sækja mætti börn í skólum fyrir vestan Kringlumýrarbraut fórum við í Hlíðaskóla og Háteigsskóla og sóttum barnabörnin.

Frá klukkan 18.00 til miðnættis var ég í sal 1 í Kringlubíói og horfði á endursýningu á óperunni Parsifal  eftir Richard Wagner frá Metropolitan óperunni í New York. Óperan er með dagskrá sem heitir: The Met: Live in HD og nær til heimsins alls. Fyrri sýningin var í beinni útsendingu laugardaginn 2. mars. Það er einstakt tækifæri að geta notið listræns viðburðar á þennan hátt, ekki síst þegar fremstu listamenn heims eiga í hlut.

Í þessari sýningu var Jonas Kaufmann í hlutverki Parsifals, Réne Pape var Gurnemanz, Katarina Dalyman var Kundry, Peter Mattei var Amfortas og Evgeny Nikitin var Klingsor. Daniele Gatti stjórnaði hljómsveitinni og náði frábærum árangri. Sviðsmyndirnar í Metropolitan eru með ólíkindum og minna á málverk eftir stórmeistara fyrri tíma.

Michael Tanner, óperugagnrýnandi enska vikublaðsins The Spectator, fer í kvikmyndahús í London og fylgist með sýningunum frá Metropolitan og ritar síðan umsögn um uppfærsluna í blað sitt. Honum finnst jafnvel meira til þess koma að horfa á óperu á þennan hátt en að fara í óperuhúsið sjálft. Hann segir að sá sé að vísu munurinn að fari menn á óperusýningu í bíói geti þeir ekki sagt að þeir hafi verið í návist einhverrar stjórstjörnu, setið í salnum og hlustað á hana.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna sem lesa má hér.