31.3.2013 21:40

Sunnudagur 31. 03. 13 - páskadagur

Gleðilega páska!

Bilbao er einstaklega hrein borg og alla helgina hafa ryksugubílar og menn frá hreinsunardeild borgarinnar verið á ferð og flugi þótt verslanir hafi verið lokaðar nema í gær. Mikill fjöldi fólks var á götum borgarinnar í dag enda veðrið einstaklega milt og gott. Hér búa um 350 þúsund manns og gestur hefur á tilfinninguna að honum takist á fáeinum dögum að átta sig á því helsta sem borgin hefur að bjóða.

Glöggur samferðarmaður sagði mér að á sex árum hefði borginni tekist að endurheimta þann kostnað sem hún hefði borið vegna Guggenheim-safnsins og rannsóknir sýndu að til borgarinnar kæmu 800.000 manns á ári vegna safnsins. Þar skiptir húsið og frægð þess mestu og stjórnendur hafa úr ógrynni tillagna um sýningar að velja.

Margar borgir hafa viljað feta í fótspor Bilbao með einstökum byggingum í þágu menningarstarfsemi. Sagan sýnir hins vegar að dæmið skilar ekki alls staðar jafngóðum ágóða og hér í Bilbao.

Ég er í hópi þeirra sem aldrei hefði lagt leið mína til Bilbao nema vegna safnhússins og þess sem það hefur að geyma.