16.8.2011

Þriðjudagur 16. 08. 11.

Furðulegt er að hlusta á Ingva Hrafn Jónsson hrópa hér á ÍNN: Ég vil sjá „dílinn“! og vísa þar til þess hinn 16. ágúst 2011 að hann vilji sjá einhvern „díl“ Íslands og Evrópusambandsins. Menn ættu frekar að hrópa þennan dag: Ég vil sjá Evrópusambandið! Ég vil sjá hvernig það verður!

Þennan sama dag, þriðjudaginn 16. ágúst, komu Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, saman í París og ákváðu að breyta evru-samstarfinu. Þau ákváðu að komið skyldi á fót evru-ríkisstjórn til að fara með stjórn efnahags- og ríkisfjármála í 17 evru-ríkjum.

Allir sem fylgst hafa með framvindu mála á evru-svæðinu síðan í bankahruni og þó sérstaklega síðan snemma árs 2010 vita að aðeins eru tveir kostir fyrir evru-ríkin: þau afsala sér stjórn eigin efnahagsmála eða brjóta upp samstarf sitt.  Þau Merkel og Sarkozy velja fyrri leiðina.

Nágrannaþjóðir okkar Íslendinga innan Evrópusambandsins: Bretar, Danir og Svíar hafa ákveðið að standa utan evru-svæðisins. Þjóðirnar þrjár stíga aldrei skrefið inn á það verði því breytt eins og Merkel og Sarkozy vilja. Bilið milli ESB-ríkja utan evru-svæðisins og innan þess mun breikka.

„Díll“ Íslands við Evrópusambandið verður reistur á því að Íslendingar gangi inn í hið nýja evru-land . „Díllinn“ mun banna Íslendingum að eiga samleið með Bretum, Dönum og Svíum og knýja þá til að verða hluti hins nýja miðkjarna ESB með efnahagsstjórn þar sem ríki í austurhluta og suðurhluta Evrópu vega þyngst.

Sama kvöld og Ingvi Hrafn réð sér ekki af hneykslun yfir að einhverjum dytti í hug að hann fengi ekki að sjá „dílinn“ ræddi Charlie Rose við Warren Buffett, fjárfesti og milljarðamæring, á Bloomberg­-stöðinni.  Charlie spurði hann um evruna. Buffett vildi ekki segja neitt annað en að það væri mjög erfitt fyrir ríki að gefa frá sér réttinn til að prenta sína eigin mynt. Þar með svipti það sig réttinum til að leysa vanda sinn á eigin spýtur. Hann vonaði að Bandaríkjamönnum dytti aldrei í hug að gera slíka vitleysu, einmitt vegna þess að þeir myndu ekki gera það hefði verið alrangt að lækka lánshæfismat Bandaríkjanna.

Er ekki tímabært að gera hlé á viðræðunum við ESB og hugsa málið upp á nýtt?