29.8.2011

Mánudagur 29. 08. 11

Stjórnmálastarfið er að hefjast að nýju eftir sumarleyfi. Ég velti því fyrir mér Evrópuvaktinni hvort einhver ætlaði að bjóða sig fram gegn Jóhönnu Sigurðardóttur á landsfundi Samfylkingarinnar í október. Framboði þarf að skila í næstu viku. Líklegt er að Jóhanna sitji á friðarstóli þótt vinsældir hennar minnki jafnt og þétt eins og ríkisstjórnarinnar.

Hér á síðunni skrifaði ég í dag pistil um ágreining innan Samfylkingarinnar um hvernig halda eigi á tillögum stjórnlagaráðs. Þar deila þau Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar alþingis, og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti alþingis. Það er líklega til marks um almennt áhugaleysi á störfum og tillögum stjórnlagaráðs að ég verð ekki var við að neinn annar bendi á þennan ágreining forystumanna Samfylkingarinnar á þingi. Traustið á alþingi er aðeins um 12% og kannski er öllum sama um hvað þar gerist. Þingið þarf þó að taka á tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlagaráðsliðar hafa haft í heitingum við alþingi taki það tillögum þeirra ekki af nægri virðingu að þeirra mati.

Ég hef vakið máls á hinni stórundarlegu ályktun flokksráðs VG um rannsókn á aðild að Íslands að ákvörðunum NATO um hernað í Líbíu. Össur Skarphéðinsson lítur greinilega þannig á að ályktunin sé ögrun við sig og er það rétt mat hjá honum. Hann sagði í RÚV í kvöld að hann hefði farið nákvæmlega eftir landslögum jafnt sem alþjóðalögum og bætti við:

„Ég er ekkert hræddur við svona rannsóknarnefnd og ef að félagar mínir í VG hafa sérstakan áhuga á að leggja fram rannsóknarnefnd til að skoða mínar gerðir, þá segi ég bara: Verði þeim að góðu. Það hafa aðrir en ég ástæðu til að óttast það."

Því miður spurði fréttamaðurinn ekki hvað fælist í hótuninni í síðustu setningunni. Hverju víkur Össur að í gjörðum VG með þessum orðum? Er hann að skapa sér stöðu út af einhverju öðru máli? Kannski að rífast undir rós við Jón Bjarnason út af ESB?

Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir loga af ágreiningi. Ráðherrar líta ekki á það sem hlutverk sitt að slökkva elda heldur magna þá. Þar fer Jóhanna Sigurðardóttir gjarnan fremst í flokki og eftir höfðinu dansa limirnir.