29.8.2011

Vandræði Jóhönnu vegna stjórnarskrárinnar

Ekki er enn tímabært fyrir aðra en sérstaka áhugamenn um störf stjórnlagaráðs að kynna sér tillögur þess að nýrri stjórnarskrá. Deilur um meðferð tillagnanna hafa verið og verða í sviðsljósinu frekar  efni málsins Sumir stjórnlagaráðsliðar láta eins og ekkert sé sjálfsagðara en tillögur þeirra séu lagðar beint fyrir kjósendur til ákvörðunar. Þeir hafi unnið frábært starf og náð samstöðu um niðurstöðuna og þess vegna eigi allir aðrir að geta sætt sig við hana. Á alþingi eru menn annarrar skoðunar. Alþingi er stjórnarskrárgjafinn en ekki stjórnlagaráð.

Nokkurs óþols gætir meðal stjórnlagaráðsliða og vina þeirra vegna þess hve litlar umræður eru um málið. Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og dálkahöfundur Fréttblaðsins, sagði til dæmis í blaðinu 29. ágúst:

„Maður hefur svolítið verið að bíða eftir því að meiri og minni spámenn tjáðu sig um frumvarp stjórnlagaráðsins að nýrri stjórnarskrá. Kannski eru allir enn að hugsa. Allir stjórnmálafræðingarnir, heimspekingarnir, stjórnmálamennirnir, háskólamennirnir, já og lögfræðingarnir sem alltaf eru að fella úrskurði sína í fréttatímunum…

Kerfið þegir. Það kunna að vera varnarviðbrögð, rétt eins og þegar kerfismenn reyndu á sínum tíma að koma með öllum ráðum í veg fyrir að Stjórnlagaþing yrði haldið, og virtist um hríð ætla að takast að ónýta málið í Njálustíl; ryðja dóminn með tilvísun til þykktar og hæðar á þili milli bása.“

Guðmundur Andri gerir þarna lítið úr því að hæstiréttur ógilti kosningarnar til stjórnlagaþings.  Róbert Spanó, prófessor og ritstjóri Tímarits lögfræðinga, ræðir ákvörðun hæstaréttar um ógildinguna í nýjasta hefti tímaritsins og segir að sex annmarkar á kjöri til stjórnlagaþings, þar af tveir metnir verulegir, hafi fullnægt almennum mælikvarða um að ógilda bæri kosninguna. Þá segir lagaprófessorinn:

„Aldrei má heldur gleyma því að í lýðræðislegu þjóðfélagi er brýnt að í hvívetna sé gætt að þeim sjálfsagða rétti kjósenda í opinberum kosningum að leynd sé tryggð. Ef á það skortir í ríkum mæli hlýtur að koma til greina að kosning fari fram að nýju að öðrum skilyrðum uppfylltum.“

Eins og kunnugt er ákvað alþingi að svipta þjóðina rétti til að kjósa sér stjórnlagaþing að nýju og ákvað þess í stað að koma á fót stjórnlagaráði. Með því var gengið á svig við hæstarétt auk þess sem kjósendur voru sviptir þeim rétti sem alþingi hafði veitt þeim til að kjósa menn á stjórnlagaþing. Risið á tillögum sem forseti stjórnlagaráðs afhenti forseta alþingis 29. júlí 2011 var allt annað og lægra en það hefði verið ef tillögurnar hefðu komið frá löglega kjörnu stjórnlagaþingi. Fram hjá þessari staðreynd verður ekki gengið og ekki gert lítið úr henni með stílbrögðum sjálfs Guðmundar Andra.

Á alþingi greinir samfylkingarþingmennina Róbert Marshall, formann allsherjarnefndar, og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta alþingis, á um meðferðina á tillögum stjórnlagaráðs.

Róbert Marshall segir á vefsíðu sinni 29. ágúst:

„Mér líst ljómandi vel á tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Hef verið að lesa mig í gegnum þær og gæti vel samþykkt tillöguna nánast eins og hún er. Við höfum hins vegar tíma til að vinna þetta enn betur. Hef lagt það til að málsmeðferðin verði rædd á einum degi í þinginu núna í september; tillögunni verði svo vísað til stjórnlaganefndar (sjömanna nefndin) sem vinni málið áfram, beri breytingar undir stjórnlagaráð (25 manna hópurinn) ef einhverjar eru, tillagan fari í þjóðaratkvæði/skoðanakönnun/netkönnun/þjóðfund, og svo verði flutt frumvarp í þinginu. Svo þarf þingrof og næsta þing þarf að samþykkja frumvarpið til að það verði að nýrri stjórnarskrá sem gæti samkvæmt þessu tekið gildi sumarið 2013.“

Af þessum orðum má ráða að Róbert vilji ekki að efni tillagna stjórnlagaráðs verði rætt á þingi „á einum degi“ heldur eigi þingmenn að ræða „málsmeðferðina“  einn dag í september og bíða síðan með efnislega afstöðu þar til stjórnlaganefnd þingsins hafi fjallað um tillögur stjórnlagaráðs og beri tillögur um breytingar undir stjórnlagaráðið.  Af þessum orðum má ráða að Róbert telji ráðið enn að störfum.

Eftir að stjórnarskrárnefnd þingsins hefur fjallað um málið vill Róbert að niðurstaða hennar „fari í þjóðaratkvæði/skoðanakönnun/netkönnun/þjóðfund, og svo verði flutt frumvarp í þinginu“. Óljóst er hvort hann vill að þingheimur allur fái að ræða málið áður en því er skotið á þann hátt sem hann lýsir út fyrir veggi þinghússins. Væntanlega vill hann setja sérstök lög um þessa málsmeðferð svo að öllum sé ljóst hvaða lögfylgjur tengjast henni. Að lokinni meðferð þingnefndarinnar og málskotinu til almennings vill Róbert að flutt verði frumvarp til stjórnskipunarlaga og afgreiðslu þess verði háttað í samræmi við gildandi stjórnarskrá.

Síðar þennan sama mánudag, 29. ágúst, kom í ljós að þá voru síðustu forvöð fyrir Róbert Marhall að birta tillögu sína því að forsætisnefnd alþingis drap hana snarlega með tilkynningu sinni. Af henni má ráða að Róbert Marshall hafi farið villur vega við tillögusmíð sína og ekki tekið hið minnsta mið af þingsköpum. Þá er ekkert tillit tekið til óska hans um umræður um stjórnarskrármál í september. Fær hann næsta háðulega útreið hjá forsætisnefnd sem er óvenjulegt þegar formaður allsherjarnefndar á hlut að máli og líklega einsdæmi.

Í tilkynningu Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta alþingis, um þinglega meðferð tillagna stjórnlagaráðs segir að aðeins þingmenn geti lagt tillögur í formi þingskjals fram á alþingi, forseti þingsins vilji hins vegar að tillögur stjórnlagráðs séu lagðar fram sem skýrsla frá forsætisnefnd til þingsins. Í því felist ekki efnisleg afstaða til tillagnanna eða einstakra þátta þeirra. Í skýrslunni verði saga málsins reifuð og fjallað um störf stjórnlagráðs, frumvarpstextinn birtur ásamt greinargerð frumvarpsins og jafnframt birt nauðsynleg fylgiskjöl. Skýrslan verði lögð fram í október eftir að nýtt þing kemur saman af því að ekki sé tími til að ræða málið í september. Engar hömlur verða af hálfu forseta á þeirri umræðu að henni lokinni gangi málið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, sem fjalli um stjórnarskrármál. Æskilegt sé að nefndin kalli til fundar við sig ýmsa þá sem unnið hafi að málinu á fyrri stigum þess, t.d. fulltrúa í fyrrum stjórnlaganefnd og stjórnlagaráði, sérfræðinga í stjórnskipunarrétti og aðra þá er nefndin kunni telja gagnlegt að hafa samráð við um meðferð málsins. Þá er hvatt til þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin leiti jafnframt til almennings með auglýsingu um umsagnir líkt og gert var við breytingar á stjórnarskrá á þinginu 1994-95.

Margítrekað er í tilkynningu forseta alþingis að samstaða sé um þetta mál í forsætisnefnd þingsins, forseti alþingis hafi reifað þessi sjónarmið opinberlega og enginn gert athugasemd við þau. Af þeim orðum má ráða að tillagan sem Róbert Marshall birti á vefsíðu sinni hafi aðeins verið til heimabrúks og hann hafi ekki einu sinni kynnt hana fyrir Ástu Ragnheiði. Eða hvað?

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvað stjórnlagaráð og hollvinir þess segja um boðaða málsmeðferð alþingis.  Víst er að hún er ekki í samræmi við óskir Þorvalds Gylfasonar, prófessors og stjórnlagaráðsmanns. Hann telur að alþingi beri lýðræðisleg skylda til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið frá stjórnlagaráði. Alþingi ráði hvort það gefi þjóðinni samtímis færi á að greiða atkvæði um nýtt frumvarp alþingis til nýrrar stjórnarskrár, þannig að val kjósenda standi á milli frumvarps stjórnlagaráðs og frumvarps alþingis. „Að öðrum kosti hlýtur val kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni að standa milli frumvarps stjórnlagaráðs og gildandi stjórnarskrár frá 1944. Mér þykir síðari kosturinn eðlilegri, þar eð afskipti Alþingis af stjórnarkránni eiga ekki vel við,“ sagði Þorvaldur á dv.is á dögunum og bætti við: „Enginn skuli taka sér dómarasæti yfir sjálfum sér.“

Þorvaldur vill í raun ekki að alþingi sinni stjórnarskrárbundinni skyldu sinni við endurskoðun á stjórnarskránni. Kasti því valdi frá sér og fyrir þjóðina verði lagðir tveir kostir: stjórnarskráin frá 1944 og tillögur stjórnlagaráðs.  

Þorvaldur boðaði að stjórnlagaráðsmenn mundu sækja inn á alþingi yrði ekki farið að óskum þeirra.

Þetta breytingabrölt varðandi stjórnarskrána hófst um leið og Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra. Fyrir kosningar 25. apríl 2009 ætlaði Jóhanna, með aðstoð Framsóknarflokksins, að knýja fram breytingu á stjórnarskránni af dæmalausri frekju. Hún komst ekki upp með hana. Síðan hefur öll málsmeðferðin orðið Jóhönnu til hinna mestu vandræða. Dómgreindarleysi hennar hefur hins vegar ráðið ferðinni. Nú situr alþingi uppi með tillögur sem samfylkingarmenn kasta þar á milli sín.

Það er jafn illa stofnað til þessara breytinga á stjórnarskránni og aðildarinnar að ESB. Í báðum tilvikum er einnig stefnt í óefni, fyrir utan hve fráleitt er að stuðla að átökum innan flokka og milli flokka með því að setja þessi mál á oddinn á þann veg sem gert hefur verið.