2.8.2011

Þriðjudagur 02. 08. 11.

Ég sé á netinu að vakið hefur athygli að ég taldi Le Monde diplomatique lítt til hróss að hafa birt grein eftir Robert Wade og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur háskólakennara um Ísland. Ég sagði hér á síðunni sl. sunnudag að greinin gæfi brenglaða og að mörgu leyti alranga mynd af því sem gerst hefði hér á landi undanfarin ár og áratugi. Hún væri reist á samsæriskenningum um íslensk stjórnmál. Þau stykkju út í pólitísku laugina án þess að kunna sundtökin. Buslugangurinn væri í samræmi við það.

Af mörgu er að þessari skoðun til stuðnings. Ég birti tvær efnisgreinar hér fyrir neðan í þýðingu minni:

„Það er bein lína frá hálfgerðu lénsskipulagi 19. aldar til nútímalegs kapítalisma á Íslandi á síðari hluta 20. aldar þegar blokk 14 fjölskyldna, almennt þekkt undir heitinu Kolkrabbinn stjórnaði stjórnmála- og fjármálalífi þjóðarinnar. Kolkrabbinn stjórnaði innflutningi, samgöngum, bönkum, tryggingum, útgerð, fiskvinnslu og birgðum fyrir NATO stöðina auk þess að leggja til helstu stjórnmálamennina. Fjölskyldurnar lifðu eins og goðar.

Kolkrabbinn stjórnaði Sjálfstæðisflokknum sem hafði undirtökin í fjölmiðlun og skipaði menn í allar helstu stöður í stjórnkerfinu, lögreglunni og dómstólunum.  Ríkisreknir bankar voru í raun reknir af helstu flokkunum, Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum [þ.e. Framsóknarflokknum]. Venjulegt fólk varð að hafa samband við flokksstarfsmenn til að fá lán til að kaupa bíl eða til að fá gjaldeyri til að ferðast til útlanda. Valdakerfi þreifst eins og vefur eineltis, undirlægjuháttar og vantrausts, gagnsýrt af karlrembu, líkt og gerðist í Sovétríkjunum.“

Teljist þetta ekki til samsærislýsinga í stað fræðimennsku veit ég ekki hvar á að draga mörkin. Óvild og/eða vanþekking birtist í hverri setningu.

Af fleiru er að taka og kann ég að víkja að því síðar.