9.8.2011

Þriðjudagur 09. 08. 11.

Mér var hugsað til þess í dag þegar ég las á Eyjunni, sem er bloggvettvangur Egils Helgasonar, frásögnina um illdeilur innan Borgarahreyfingarinnar eftir að talsmanni hennar hefur verið vikið til hliðar með kæru til efnahagsbrotadeildar fyrir meðferð á fé, að Egill skýrði opinberlega frá því eftir þingkosningarnar vorið 2009 að hann hefði kosið Borgarahreyfinguna.

Egill taldi eins og fleiri að með Borgarahreyfingunni kæmi til sögunnar nýtt stjórnmálaafl sem mundi skáka gömlu flokkunum. Nú hefur þessi flokkur splundrast bæði á þingi og utan þings.

Þráinn Bertelsson var einn þeirra sem náði kjöri á þing undir merkjum Borgarahreyfingarinnar. Hann situr nú í þingflokki vinstri-grænna og styður ríkisstjórn sem hefur aðeins eins atkvæðis meirihluta á þingi. 

Þingmenn ríkisstjórnarinnar hittust í gærkvöldi til að ræða fjárlög ársins 2012 sem erfitt verður að berja saman. Þráinn nýtir sér aðstöðu sína með yfirlýsingum í dag um að hann muni ekki styðja fjárlagafrumvarpið nema með því sé tryggt að nægilegt fé renni til Kvikmyndaskóla Íslands svo að hann geti starfað áfram.

Þráinn er kvikmyndagerðarmaður og leikstjóri. Er aðferð hans til að knýja fram fjárveitingu til kvikmyndaskólans í anda hinna nýju tíma sem Borgarahreyfingin boðaði í íslenskum stjórnmálum? Hvað segir Egill Helgason um það? Eða Lilja Skaftadóttir, útgefandi DV, sem bauð sig fram fyrir Borgarahreyfinguna? Hún segist beita sér fyrir nýjum og betri siðum í íslenskum stjórnmálum.