23.8.2011

Þriðjudagur 23. 08. 11.

Spunafréttir um brottför Guðmundar Steingrímssonar úr Framsóknarflokknum snerust um að Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, hefði setið fundi með Guðmundi í aðdragandanum og lagt á ráðin. Þessar fréttir urðu til þess að Össur Skarphéðinsson lét í sér heyra um málið í fjölmiðlum í dag og sagðist hann saklaus af öllu í málinu og talaði um sjálfan sig í þriðju persónu eins og einhvern sem engu skipti þegar stórpólitík væri á döfinni.

Þeir sem þekkja Össur vita að þetta eru látalæti í honum. Alltaf þegar hann gerir lítið úr áhrifum sínum er fiskur undir steini. Að sjálfsögðu hefði hann aldrei viðurkennt að hann ætti hlut að vistaskiptum Guðmundar. Að koma í sjónvarpsfréttir og setja á svið lítinn leikþátt um eigið áhrifaleysi segir allt sem segja þarf um að Össur hefur verið með puttana í þessu máli, líklega í von um að geta dregið Guðmund inn í Samfylkinguna.

Einkennilegt er að enginn álitsgjafi eða stjórnmálarýnir taki eftir því að aukin harka hefur hlaupið í andstöðu ríkisstjórnarinnar við Kvikmyndaskóla Íslands síðustu sólarhringa og í kvöld réðst Svandís Svavarsdóttir, starfandi menntamálaráðherra, á stjórnendur skólans og sakaði þá um frekju. Harkan stafar af því að ráðherrann og ríkisstjórnin er öruggari gagnvart Þráni Bertelssyni og hótunum hans eftir að Guðmundur boðaði afsögn sína úr Framsóknarflokknum og hét ríkisstjórninni hlutleysi, það er að verja hana vantrausti.  Þráinn hefur líf ríkisstjórnarinnar ekki lengur í hendi sér, hann hefur fallið í verði og kvikmyndaskólinn geldur þess af því að ráðherrar vilja sýna Þráni og öðrum ólátabelgjum sem ætluðu að spila á eins atkvæðis meirihluta ríkisstjórnarinnar að þeir hafi ekki sitt fram - þökk sé Guðmundi Steingrímssyni.

Ríkisstjórnin leysti innbyrðis deilur um nýtt fangelsi með því að falla frá ákvörðun um tafarlaust alútboð og efna þess í stað til óþarfrar hönnunarsamkeppni. Að fjölmiðlamenn átti sig ekki á að leikið er á þá með þessu sýnir best grunnhyggni þeirra gagnvart ráðherrunum.  Hér má lesa um efni ákvörðunar ríkisstjórnarinnar.