12.8.2011

Föstudagur 12. 08. 11.

Þrjár þingnefndir komu saman fimmtudaginn 11. ágúst til að ræða útgöngu íslensku sendinefndarinnar á síðasta fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Stjórnarsinnar í nefndunum gagnrýndu útgönguna en tilgangur hennar var að mótmæla ofríki af hálfu hvalfriðunarsinna. Árni Þór Sigurðsson segir í bloggi á vefsíðu VG, Smugunni, í dag:

„Er engu líkara en að það valdi fulltrúum stjórnarandstöðunnar miklum kvölum að haldið sé uppi málefnalegri gagnrýni á hvalveiðarnar hér við land og ekki síst það hagsmunamat sem bersýnilega birtist í þeirri afstöðu að hvalveiðarnar þurfi ekki að ræða, vegna þess að Alþingi hafi samþykkt þær á síðustu öld!  Þetta er sama þöggunarviðhorf og einkenndi útrásardýrkunina, sams konar hagsmunagæsla og fólst í því að reka trippin í þágu fárra stórra markaðsráðandi fyrirtækja í stað þess að huga að almannahag.“

Fyrir þá sem fylgdust með því kappi sem árum saman var lagt á að alþingi samþykkti ályktun um upphaf hvalveiða að nýju og þá staðreynd að á tíunda áratugnum samþykkti alþingi bæði úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og síðan aðild að nýju með fyrirvara er með ólíkindum að lesa þessi skrif Árna Þórs Sigurðssonar. Að kenna ályktun alþingis á sínum tíma við „þöggunarviðhorf“ og „útrásardýrkun“ er til marks um rökþrot í málefnalegum umræðum.

Mér virðist að samfylkingarfólkið í þingnefndunum og andstæðingar Jóns Bjarnasonar innan VG hafi tekið höndum saman í hvalamálinu til að búa í haginn fyrir aðildina að Evrópusambandinu. Hvalveiðar eru fleinn í holdi þings Evrópusambandsins og án þess að þeim sé hætt verður aldrei neinn samningur um ESB-aðild við Ísland samþykktur af ESB-þingmönnum.

Orð Árna Þórs verða ekki skilin á annan hátt en þann að kröfur þeirra útlendinga sem vilja ráða því hvort Íslendingar veiða hval eða ekki sé í samræmi við almannahag Íslendinga. Hvernig í ósköpunum kemst þingmaðurinn að þessari niðurstöðu? Ferðamannastraumur hefur til dæmis aldrei verið meiri til landsins en eftir að að nýju var gefin heimild til hvalveiða.

Undansláttarstefna á borð við þá sem Árni Þór boðar verður aðeins til að gleðja þá sem vilja beita Íslendinga þvingunum. Ef Árni Þór og félagar réðu í Færeyjum ætti  Watson í Sea Shepard ekki í vandræðum með að fá stað undir fund til að ráðast á Færeyinga - hann líkir þeim við fjöldamorðingjann Breivik vegna grindhvaladrápsins. Watson varð að hætta við fund í Færeyjum af því að enginn vildi hýsa hann.