7.8.2011

Sunnudagur 07. 08. 11.

Fyrir þá sem fylgjast með því sem gerist á evru-svæðinu og þeim titringi sem þar ríkir og ótta við að allt fari á hinn versta veg er ótrúlegt að verða  vitni að ummælum Árna Páls Árnasonar. efnahags- og viðskiptaráðherra, í Le Monde um að evran eigi engan hlut að efnahagsvanda evru-ríkjanna. Sömu sögu er að segja um ummæli Aðalsteins Leifssonar, lektors við Háskólann í Reykjavík, í RÚV 6. ágúst þar sem hann lét eins og evru-vandann mætti að sjálfsögðu leysa enda hefði Evrópusambandið eða stofnanir þess alla burði til þess. Síðan ætti bara að dýpka samstarfið og þá mundi evran öðlast nýtt líf.

Fréttastofa RÚV lét þess ekki getið að Árni Páll skipaði Aðalstein Leifsson nýlega formann stjórnar fjármálaeftirlitsins. Það hefði kannski skýrt fyrir einhverjum hvers vegna í ósköpunum rætt var við Aðalstein um evruna þegar undrunin yfir evru-ummælum Árna Páls voru sem mest. Þá hafa spunaliðar Samfylkingarinnar séð að kalla yrði til  einhvern fræðimann sem mundi örugglega hafa sömu skoðun á ágæti evrunnar og Árni Páll og að sjálfsögðu var fréttastofa RÚV til í spunaleikinn.

Fréttir af stöðu peninga- og fjármála á heimsvísu eru verri núna en í ágúst 2008 nokkrum vikum fyrir bankahrunið. Núverandi stjórnarherrar hafa látið eins og árvekni þeirra og mat á atburðum líðandi stundar sé betra en þeirra sem héldu um stjórnvölinn á sama tíma fyrir þremur árum enda hafa þeir ákært Geir H. Haarde og stefnt honum fyrir landsdóm vegna aðgæsluleysis.

Að formaður stjórnar fjármálaeftirlitsins sé ekki meira á áttinni þegar kemur að evrunni lofar ekki góðu um árvekni og aðgæslu af hans hálfu.