11.8.2011

Fimmtudagur 11. 08. 11.

Árný J. Guðmundsdóttir lögfræðingur áréttar enn í Morgunblaðinu í dag að fjármálaeftirlitið hafi skort lagaheimild til að grípa inn í rekstur Sparisjóðsins í Keflavík (í apríl 2010) og síðar Spkef sparisjóðs (mars 2011), Rök hennar eru sterk og þeim hefur ekki verið svarað á sannfærandi hátt af stjórnvöldum sem eru orðin þrísaga í málinu.

Árný nefnir að í neyðarlögunum frá október 2008 séu dregin skil á milli viðskiptabanka og sparisjóða. Ákvæði laganna eru ótvíræð um þetta efni. Þá mæla lögin fyrir um aðstoð ríkisins við sparisjóði af því að ætlunin var að annað gilti um komu ríkisins að þeim en viðskiptabönkunum.

Fróðlegt væri að sjá rökstuðning þeirra lögfræðinga sem hafa komist að annarri niðurstöðu  en Árný og telja fært að lögjafna frá neyðarlögunum og finna út að vilji löggjafans hafi í raun staðið til þess að sama gilti um sparisjóði og viðskiptabanka þegar löggjafinn dregur einmitt skýr skil þar á milli.

Það er fagnaðarefni að lögfræðingur stofnar til opinberra umræðna um störf fjármálaeftirlitsins og hvernig staðið er að málum af hálfu fjármálaráðuneytisins undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar. Hann hefði átt að sjá til þess að ekki vöknuðu efasemdir um þessar sviptingar á fjármálamörkuðum. Ábyrgð á lögmæti í þessu máli hvílir að lokum á fjármálaráðherra.

Öll málsmeðferð í tengslum við Sparisjóð Keflavíkur eða Spkef er þess eðlis að þriðji aðili verður að láta í ljós álit um lögmæti þess sem gert hefur verið. Árný J. Guðmundsdóttir hefur þar lagt góðan skerf af mörkum en hún hefur ekki heimildir til að kalla eftir gögnum frá stjórnvöldum. Umboðsmaður alþingis ætti að strax að krefjast skýring og leggja mat á gjörðir stjórnvalda sem eru orðin þrísaga í málinu.