10.8.2011

Miðvikudagur 10. 08. 11.

Í dag hóf ég aftur töku viðtala á ÍNN eftir sumarleyfi og ræddi að þessu sinni við Björn Jón Bragason, formann Frjálshyggjufélagsins. Tilefnið var grein sem hann skrifaði í sumarhefti Þjóðmála  um leyndarhyggju stjórnvalda. Björn Jón telur að hún hafi aukist eftir bankahrun þótt rannsóknarnefnd alþingis hafi krafist fleiri minnisblaða og fleiri fundargerða. Nefndi hann til marks um það hve lítið væri til af skjölum sem tengdist Straumi Burðarási og falli bankans. Þá benti hann einnig á að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði flutt frumvarp að nýjum upplýsingalögum þar sem réttur almennings til upplýsinga væri þrengdur.

Við ræddum einnig um frjálshyggjunnar og ásakanir í hennar garð vegna bankahrunsins. Björn Jón telur alrangt að skella skuldinni af hruninu á frjálshryggjuna. Hrunið megi ekki rekja til of lítilla ríkisafskipta heldur of mikilla þar sem skattfé almennings sé notað til að standa undir tapi banka og fjármálastofnana í eigu einkaaðila.

Um þessar mundir eru tvö ár liðin frá því að ég hóf gerð viðtalsþáttanna á ÍNN. Unnt er að skoða þá alla hér á inntv.is.