6.8.2011

Laugardagur 06. 08. 11.

Mikil spenna er nú í stjórnmála- og viðskiptaheiminum um víða veröld því að ljóst er að óvissa ríkir um viðbrögð á fjármálamörkuðum á mánudaginn við ákvörðun Standard & Poor's að lækka lánshæfismat Bandaríkjanna í fyrsta sinn í sögunni. Á Evrópuvaktinni er ágæt úttekt á málinu eins og sjá má hér.

Ágreiningur Árna Páls Árnasonar efnahagsmálaráðherra og Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra sem birtist í ummælum þeirra í tengslum við gerð fjárlaga ársins 2012 vekur spurningu um hæfni ríkisstjórnarinnar til að taka á fjármálum ríkisins.

Efnahagsstjórn og mótun efnahagsstefnu hefur jafnan verið helsta verkefni forsætisráðherra Íslands. Svo er ekki lengur því að Jóhanna Sigurðardóttur treysti sér ekki til að fara með yfirstjórn efnahagsmála heldur flutti hana í viðskiptaráðuneytið og tók sjálf með sér jafnréttismálin úr félagsmálaráðuneytinu.

Hver skyldi afstaða forsætisráðherra vera í efnahagsmálum? Hallast Jóhanna á sveif með Árna Páli eða Steingrími J.? Eða skilar hún bara auðu?

Óróinn í samfylkingarmönnum vegna fjárlaganna minnir á tímann eftir bankahrun þegar þeir Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson tóku til við að ræða um myndun ríksstjórnar á bakvið Sjálfstæðisflokkinn.

Kristján J. Möller stillir sér upp á móti Ögmundi vegna vegagerðar. Árni Páll stillir sér upp á móti Steingrími J. vegna kjarasamninga. Össur lítillækkar Jón Bjarnason með því að hrifsa stefnumótun í hans málaflokkum í sínar hendur í viðræðunum við ESB.

Hvern skyldi Össur ræða við núna um myndun nýrrar stjórnar? Hverjir í ósköpunum vilja leggja honum lið í ESB-málum? Þegar Ögmundur gekkst inn á slíka liðveislu haustið 2008 komst stjórnarmyndunin á beinu brautina.