1.8.2011

Mánudagur 01. 08. 11.

Í dag eru sex ár liðin frá því að Andríki opnaði bóksölu sína á netinu. Í tilefni af afmælinu segir á vefsíðu andríkis, Vef-Þjóðviljanum:

„Á afmæli sínu hefur Bóksalan oft gert viðskiptavinum sínum sérstök tilboð í hátíðarskyni. Að þessu sinni býður Bóksalan þá fyrri þessara tveggja sláandi bóka á verulegum afmælisafslætti. Næstu tvær vikur fæst Rosabaugur yfir Íslandi í Bóksölu Andríkis á 2499 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu eins og alltaf í Bóksölunni. Við erlendar pantanir bætist 900 króna sendingargjald. Er þetta verulegur afsláttur frá hefðbundnu verði, en í efnislegum bókaverslunum kostar bókin um 4000 krónur og menn verða sjálfir að bera hana á bakinu heim.“


Ég þakka hinum ágætu Andríkismönnum fyrir að sýna bók minni þennan áhuga. Hér er krækja á bóksölu þeirra fyrir þá sem vilja nýta sér kostakjörin á bókinni.

Reglulega berast mér vinsamleg bréf frá lesendum bókarinnar og þakka ég þau. Nokkrar vikur eru liðnar frá því að 2. prentun hennar kom á markað en í henni færði ég í rétt horf fyrir hvað Jón Ásgeir var dæmdur 5. júní 2008 í hæstarétti það er meiriháttar bókhaldsbrot en ekki fjárdrátt eins og ég hafði misritað. Vegna þessarar misritunar hefur verið alið á því af pennum í þágu Baugsmanna eins og Reyni Traustasyni á DV sem enn skrifar um „náhirðina“ í 2007-stíl og Ólafi Arnarsyni á Pressunni að bókin sé full af villum. Þetta er ekki annað en lágkúruleg leið í anda þeirra aðferða sem lýst er rækilega í bókinni.