5.8.2011

Föstudagur 05. 08. 11.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á i vök að verjast vegna evru-vandans. José Manuel Barroso, forseti hennar, ritaði bréf til leiðtoga ESB-landanna miðvikudaginn 3. ágúst til að minna þá á að evrunni væri ógnað. Hinn 4. ágúst sagðist Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, ekki skilja hvað hefði komið yfir Barroso að láta sér til hugar koma að skrifa bréf sem veikti trúverðugleika aðgerða til bjargar evru-svæðinu. Bréfið hefði hins vegar þegar haft áhrif á fjármálamörkuðum. Verðfall varð í kauphöllum þennan dag. Það eigi eftir að koma í ljós hvernig þetta fari allt saman. Það sé hins vegar utan verksviðs utanríkisráðherra að fjalla um það.

Olli Rehn, efnahagsmálastjóri ESB, batt enda á sumarleyfi sitt í Finnlandi í dag, hélt til Brussel á blaðamannafund þar sem hann varaði við því að menn töluðu óvarlega um evruna. Framkvæmdastjórnin ynni dag og nótt að því að skjóta traustari fótum undir evruna; henni mætti bjarga þrátt fyrir allt.

Þegar uppnámið magnast á evru-svæðinu og fjármálaóvissa eykst birtir franska blaðið Le Monde viðtal við Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra Íslands. Hann segir evruna munu veita Íslendingum „óendanlega mikinn stöðugleika“. Árni Páll veitir hinum örvingluðu framkvæmdastjórnarmönnum í Brussel styrk með þessum orðum sínum. Þau eru vissulega í þeirra anda en stangast á við allt sem gerist á fjármálamörkuðum eða í höfuðborgum ríkjanna þar sem stjórnmálamenn og fjármálamenn vita ekki sitt rjúkandi ráð vegna skorts á stöðugleika.

Ummæli Árna Páls um evru í stað krónu eru enn til marks um þá ESB-blindu sem einkennir ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. Það er skiljanlegt að Barroso og Rehn reyni að tala kjark í menn vegna evrunnar. Þeim ferst það að vísu ekki allt vel úr hendi og leita nú sökudólga annars staðar en hjá sjálfum sér. Árni Páll er hins vegar eins og álfur út úr hól þegar lofar evruna og telur hana Íslendingum helst til bjargar.