13.8.2011

Laugardagur 13. 08. 11.

Þess var minnst í gær, 12. ágúst, að 30 ár voru liðin frá því að einkatölvan, IBM PC, 5150,  kom til sögunnar. Í tilefni af því sagði dr. Mark Dean sem vann að hönnun tölvunnar hjá IBM á bloggsíðu sinni að tölvur væru „á sömu leið og ritvélin og vínil-plötur“.

Í dag sótti ég tónleika í Selinu að Stokkalæk í Rangárþingi ytra þar sem Hulda Jónsdóttir lék á fiðlu og Jane Ade Sutarjo á píanó.

Þegar ég las fréttina um 30 ára afmæli einkatölvunnar minntist ég þess að hafa heyrt Jóhann Gunnarsson, sem starfaði hjá IBM á Íslandi frá 1959 til 1982, segja frá því að hann hefði komið með fyrstu IBM einkatölvuna til landsins fyrir Ottó Michelsen, forstjóra IBM. Velti ég því fyrir mér hvenær þetta hefði verið og hvar ég gæti komist að raun um það.

Viti menn, Jóhann hlýddi á tónleikana í Selinu og að þeim loknum heilsaði ég honum og konu hans enda hafði ég hitt hann oftar en einu sinni á fundum í stjórnarráðinu, hann starfaði sem sérfræðingur í upplýsingatækni í fjármálaráðuneytinu frá 1987 þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Hann hefur átt ríkan þátt í þróun tölvu- og upplýsingatækni hér á landi, hann var meðal annars í hópi stofnenda Suris sem rak internetsamban Íslendinga við útlönd fyrstu árin eftir að það kom til sögunnar. Jóhann er heiðursfélagi Skýrslutæknifélags Íslands.

Ég minntist á 30 ára afmæli IBM einkatölvunnar við Jóhann og spurði hann hvenær hann hefði komið með hana til landsins. Hann sagði það hafa verið í janúar eða febrúar árið 1982, það er innan við hálfu ári eftir að hún kom til sögunnar.

Í dag ritaði ég leiðara á Evrópuvaktina í tilefni af  því að 50 áru liðin frá því að Austur-Þjóðverjar hófu að reisa Berlínarmúrinn. Leiðarann má lesa hér.