25.8.2011

Fimmtudagur 25. 08. 11.

Við höfum breytt útliti á Evrópuvaktinni, evropuvaktin.is, og bætt við nýjum sérgreindum efnisflokki: Viðskiptavakt við hlið stjórnmálavaktar og dálki sem við köllum Í pottinum. Þannig má segja að um sex efnisflokka sé að ræða. Fyrir utan þrjá sem nefndir hafa verið eru þrír aðir: Í fyrsta lagi fréttir einkum erlendis frá en þó innlendar þegar fjallað er um Ísland og Evrópusambandið,  Í öðru lagi leiðarar sem við Styrmir Gunnarsson ritum til skiptis, þrjá hvor á viku og í þriðja lagi pistlar, aðsendir eða samdir af okkur. Með upptöku viðskiptavaktarinnar ákváðum við jafnframt að einkenna öll önnur skrif en fréttaskrif þannig að lesendur átti sig á höfundi.

Síðunni höfum við haldið úti síðan í apríl 2010 og hefur aldrei liðið dagur án þess að nýtt efni birtist og yfirleitt margar fréttir dag hvern.

Ég skrifaði í dag hugleiðingu á Evrópuvaktina um dálæti fréttastofu RÚV við Þórólfi Matthíassyni hagfræðiðprófessor en ráðist hann á sauðkindina eða eigendur hennar í aðsendri grein í Fréttablaðinu er efni greinarinnar jafnan reifað í fréttatíma RÚV. Þá gat Þórólfur sér þess til að fulltrúar sauðfjárbænda hefðu gengið á fund háskólarektors til að bola sér úr embætti sínu. Í tilefni af síðustu endursögn fréttastofunnar á Fréttablaðsgrein Þórólfs sendu Bændasamtök Íslands frá sér tilkynningu í dag þar sem sagði meðal annars:


„Rétt er að taka fram að Bændasamtök Íslands hafa ekki fundað með háskólarektor um þetta mál. Það hafa Landssamtök sauðfjárbænda aftur á móti gert og samkvæmt upplýsingum þeirra var aldrei krafist áminningar eða uppsagnar Þórólfs Matthíassonar eins og skilja mátti af orðum hans. Það er annað hvort hugarburður Þórólfs eða þá að hann hefur fengið rangar upplýsingar frá yfirmönnum sínum.

Vakin er athygli á að deildarforseta hagfræðideildar hefur margoft verið svarað af bændum bæði í greinum og viðtölum við fjölmiðla. Málflutningur hans hefur verið fullur af rangfærslum, grófum mistúlkunum og leiðréttingar hafa ekki verið teknar til greina af hans hálfu.“


Í mínum huga er enginn vafi á því að Þórólfur telur að það þjóni málstað ESB-aðildarsinna að hann ráðist á sauðkindina og eigendur hennar fyrir að haga búskap sínum innan ramma gildandi laga og reglna á Íslandi. Þórólfur vill kollvarpa sauðfjárrækt í landinu og leikreglum um hana með aðild að ESB.