26.8.2011

Föstudagur 26. 08. 11

Í þingskjölum má sjá svör við spurningum um framkomu álitsgjafa í RÚV árin 2009 og 2010 meðal annars i Speglinum. Þar hefur enginn álitsgjafi oftar látið ljós sitt skína en Þórólfur Matthíasson, 15 sinnum árið 2009 og 10 sinnum árið 2010, samtals 25 sinnum. Enginn álitsgjafi kemst með tærnar þar sem Þórólfur hefur hælana.

Þessar tíðu viðræður við Þórólf sýna að stjórnendur Spegilsins eru á sömu bylgjulengd og hann eða öfugt þegar kemur að viðfangsefnum og skoðunum á þeim. Eins og ég hef bent á hér á síðunni tók Þórólfur afstöðu með ríkisstjórninni í Icesave-málinu. Hann lagðist einnig á sveif með stjórninni í kvótamálinu. Loks hefur hann tekið sér fyrir hendur að ráðast á sauðkindina og bændur til að styðja stefnu Samfylkingarinnar í ESB-aðildarmálinu.

Hið sama má segja um öll þessi mál ekkert gengur eftir af því sem Þórólfur segir um þau. Það er því ekki kallað á hann í Spegilinn af því að hann hafi eitthvað bitastætt til að málanna að leggja  heldur af því að sérvitringslegar skoðanir hans falla að þeim sjónarmiðum sem stjórnendur Spegilsins vona að ráði ferðinni.