3.8.2011

Miðvikudagur 03. 08. 11.

Í gær birti ég hér á þessum stað tvær efnisgreinar eftir Robert Wade og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur háskólakennara úr grein sem birtist í Le Monde diplomatique þar sem þau líktu stjórnarháttum hér á áttunda og níunda áratugnum við það sem gerðist í Sovétríkjunum. Samkvæmt lýsingu þeirra var Sjálfstæðisflokkurinn eins og Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna og Kolkabbinn eins konar nómenklátúra innan flokksins. Siðan halda háskólakennararnir áfram og segja:

„Þessari hefðbundnu valdaskipan [Sjálfstæðisflokksins og Kolkrabbans] var ógnað innan frá af ný-frjálshyggju hópi, Eimreiðarhópnum, (the Locomotive group) sem hafði verið mynduð snemma á áttunda áratugnum eftir að nemendur í lögfræði og viðskiptafræði við Háskóla Íslands tóku að sér útgáfu á tímaritinu Eimreiðinni og kynntu frjálshyggju. Markmið þeirra var ekki aðeins að breyta þjóðfélaginu heldur einnig að skapa sjálfum sér störf og frama í stað þess að fá mola af borðum Kolkrabbans. Eftir lyktir kalda stríðsins styrktist staða þeirra efnislega og hugmyndafræðilega, þar sem kommúnistar og jafnaðarmenn höfðu glatað stuðningi almennings. Davíð Oddsson, verðandi forsætisráðherra, stóð framarlega í hópnum.“

Ég fylgdist með því á sínum tíma þegar menn tóku höndum saman um að blása nýju lífi í Eimreiðina en varð ekki félagi í hópnum. Að líta á hann þeim augum sem gert er í ofangreindum orðum er örugglega ekki byggt á viðtölum við neina sem komu að útgáfu Eimreiðarinnar. Þetta er einfaldlega síðari tíma útlegging andstæðinga þeirra sem í hópnum voru. Hún byggist á óvild, pólitískum ágreiningi eða jafnvel einfaldlega öfund yfir því hve miklu margir í hópnum hafa áorkað.