17.8.2011

Miðvikudagur 17. 08. 11.

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af grein Péturs J. Eiríkssonar í Morgunblaðinu um rök hans fyrir aðild að ESB. Pistilinn má lesa hér.

Eitt af því sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir gerði og talið var til marks um nýja tíma við stjórn peningamála var að setja á laggirnar peningastefnunefnd í Seðlabanka Íslands. Hún átti að tryggja skynsamlegar ákvarðanir um stýrivexti. Í dag tilkynnti bankinn hækkun stýrivaxta. Reiðin og hneykslunin vegna ákvörðunarinnar er þess eðlis að engu er líkara en farið hafi verið úr öskunni í eldinn.  Þegar Már Guðmundsson seðlabankastjóri var spurður í fréttum Stöðvar 2 hvort hann hefði áhyggjur af því hvernig ákvörðun bankans var tekið svaraði hann glottandi: „Mér er borgað fyrir að hafa áhyggjur.“ Spurning er hvort hann telji sér borgað nóg - hann taldi svo ekki vera um árið.

Líklega hefðu fáir trúað því sem hafa fylgst með tali Jóhönnu Sigurðardóttur um húsnæðismál og opinber afskipti af þeim áratugum saman þar sem hún hefur löngum talið sig hafa ráð við öllum vanda að einmitt húsnæðismálin yrðu að óleysanlegri þraut eftir að hún varð forsætisráðherra.  Þetta er að sjálfsögðu í ætt við að ríkið sætir kæru fyrir dómstólum þar sem krafist er skaðabóta vegna þess hvernig Jóhanna stóð að embættaveitingu og braut jafnréttislög að mati kærunefndar. Undir stjórn Jóhönnu tókst ekki heldur að ná samningum við konuna sem taldi brotið á sér. Jóhanna flutti efnahagsmálin úr forsætisráðuneytinu þegar hún settist inn í það og tók jafnréttismálin í staðinn.

Þingmenn Samfylkingarinnar hljóta að sjá eins og aðrir að ESB-aðildarmálið er í blindgötu og ekki verður lengra haldið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þeir ættu því þess vegna að geta tekið ákvörðun um að leysa þjóðina undan hinni vonlausu og fylgislausu ríkisstjórn og ýta Jóhönnu til hliðar. Það er fyrir löngu kominn tími til þess.