13.7.2015 15:00

Mánudagur 13. 07. 15

Hér eru tvenn viðhorf evrópskra blaða í dag til evru-niðurstöðunnar vegna Grikkja.

Forsíðufrétt Le Monde:

„Klukkan er 9, bjartur morgun í Brussel. Evrópa fer á fætur, Grikkir eru enn á evru-svæðinu en allir eru dálítið timbraðir. Loks hafði tekist að finna leið til að bjarga fjárhag Grikkja, hún fannst eftir sautján tíma maraþonfund. Maraþonið hófst um hádegi á laugardardaginn [11. júlí]  þegar evru-hópurinn kom saman (fjármálaráðherrar evru-ríkjanna) og fundaði til hádegis á sunnudegi, skömmu síðar sama dag hittust leiðtogar evru-ríkjanna nítján. Samkomulag? Í raun einhver niðurstaða sem líkist helst algjörri uppgjöf Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.

Í skiptum fyrir skilyrt loforð – gríska þingið verður að samþykkja þrjú eða fjögur mikilvæg umbóta lagafrumvörp í síðasta lagi miðvikudaginn 15. júlí – um þriðja neyðarlánið til þjóðarinnar (82 til 86 milljarða evra) hefur uppgefinn, niðurlægður leiðtogi róttækra vinstri manna orðið að samþykkja lista með kröfum um umbætur sem sumar eru svo harkalegar að jafnvel evrópskum embættismönnum er nóg boðið – Grikkir eru settir eins og í öryggisgæslu. „Þetta er hryllings listi,“ segir í vikuritinu Der Spiegel. Þessu hefur öllu verið þröngvað upp á forsætisráðherra sem náði kjöri í krafti stefnuskrár gegn aðhaldi, gegn „þríeykinu“ – framkvæmdastjórn ESB í Brussel, Seðlabanka evrunnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum – gegn „Brussel-fyrirskipunum“.“

Á vefsíðu  þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung skrifar Patrick Bernau viðskiptaritstjóri síðunnar um niðurstöðuna í Brussel. Fjármálaráðherrar evru-landanna hafi hist á sjö fundum, þrír evru-leiðtogafundir hafi verið haldnir þar af einn í rúma 16 tíma. Þeir sem hafi sætt sig við ástandið fram að þessu geti tekið því rólega. Allir aðrir fyllist gremju. Það breytist sem sagt ekkert. Gríska þingið hafi til þess ekki tekið á smámálum þrátt fyrir kröfur evru-ríkja og skilyrði þríeykisins. Að það takist á við erfið mál núna sé ólíklegt.

Írar, Spánverjar, Portúgalir, Eistlendingar og Íslendingar hafi sýnt að með átaki megi snúa vörn í sókn – ekkert slíkt hafi gerst í Grikklandi og muni ekki gerast. Ekki sé um gríska uppgjöf að ræða nú frekar en fyrri daginn. Grikkir hafi samþykkt skilyrði til að fá 80 milljarða evra að láni og þar með komist gríska ríkið hjá erfiðustu sparnaðaaðgerðunum. Allt sé eins og áður, á næstu þremur árum versni staða Grikkja áfram og ágreiningur aukist innan ESB.