7.7.2015 19:00

Þriðjudagur 07. 07. 15


Le Monde sagði um klukkan 18.00 ísl. tíma að á fundi með François Hollande Frakklandsforseta, Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hefði Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, ásamt Euclide Tsakalotos, fjármálaráðherra Grikklands, lagt fram nýjar skriflegar tillögur. Segist blaðið hafa heimildir fyrir að ríkisstjórn Grikklands skuldbindi sig til að grípa til kerfisbreytinga gegn því að veitt verði frekari fjárhagsaðstoð auk uppstokkunar á skuldum. Í tillögunni kunni að felast aðlögun Grikkja að kröfum framkvæmdastjórnar ESB frá 30. júní en þá höfnuðu Grikkir kröfunum.

Le Monde segir að framlagning tillagnanna á þessum fundi leiðtoganna hafi vakið undrun. Tillögurnar hefðu átt heima á fundi fjármálaráðherranna í evru-hópnum fyrr í dag en þangað hafi Grikkir hins vegar komið tómhentir.

Um svipað leyti og Le Monde birti þessa frétt á vefsíðu sinni var sagt frá símtali Baracks Obama Bandaríkjaforseta við Angelu Merkel. Obama ræddi við Tsipras áður en hann fór inn á evru-leiðtogafundinn. Segja fjölmiðlamenn að Obama vilji að Grikkir haldi áfram evru-samstarfinu. Breska blaðið Telegraph segir á vefsíðu sinni að Obama hafi látið í sér heyra vegna ávænings um að innan evru-hópsins heyrðust  raddir um að Grikkjum væri betur borgið án evru.

Í raun eru Grikkjum allar bjargir bannaðar verði þeim ekki veitt eitthvert fjárhagslegt svigrúm af Seðlabanka evrunnar (SE). Hann hefur þó í raun ekki heimild til að láta þeim í té meira fé vegna þess að ekki liggur fyrir nein stefna grísku ríkisstjórnarinnar um efnahagsmál. Geri leiðtogaráð ESB Tsipras fært að móta slíka stefnu kann að losna um fé Grikkjum til handa innan SE. Hinn pólitíski vilji þarf að liggja fyrir svo að SE hreyfi sig frekar gagnvart Grikkjum.

Bankar hafa nú verið lokaðir í 10 daga í Grikklandi. Tuttugu evru seðlar eru uppurnir í hraðbönkum en þar er enn unnt að nálgast 50 evru seðla, einn slíkan mega Grikkir taka út á dag í stað 60 evra á meðan 20 evru seðlar voru í vélunum. Þannig virkar Seðlabanki evrunnar sem lánveitandi til þrautavara – hann skrúfar fyrir seðlastreymi. Nú heyrast raddir um lokun banka fram á mánudag 13. júlí og annar evru-leiðtogafundur verði sunnudag 12. júlí. Sagan endalausa heldur áfram.