19.7.2015 18:00

Sunnudagur 19. 07. 15

Zhang Weidong er sendiherra Kína á Íslandi. Á vefsíðu Viðskiptablaðsins er í dag kynnt viðtal við hann sem áskrifendur blaðsins geta nálgast en í kynningunni má lesa þessi ummæli sendiherrans:

„Í Kína er til málsháttur sem er á þennan veg: „Við skiljum ekki hugmyndir herramannsins með þankagangi bjánans.“ Ég held að við þurfum að reyna að skilja hvort annað á jafningjagrunni. Við verðum að segja skilið við hugtök og þankagang Kalda stríðsins, þar sem við erum sífellt að tortryggja gjörðir hvert annars. Við þurfum ekki að reisa girðingar um okkur eða líta á hvort annað sem óvini, en þannig var Kalda stríðið. Því lauk fyrir fjölda ára, en þessi hugsanaháttur er ennþá til staðar hjá sumum. Kínverjar hafa sagt skilið við hann, og Kalda stríðs-hugmyndafræðina."

Skilja má þessi orð sendiherrans að þeir séu í hlutverki bjánans sem tortryggja kínversk stjórnvöld. Í gær var sagt frá því að Barack Obama Bandaríkjaforseti hefði um helgina rofið þá hefð að forsetar Bandaríkjanna gistu jafnan á Waldorf Astoria-hótelinu við Park Avenue í New York. Forsetinn hefði valið annað hótel vegna þess að Kínverjar ættu nú Waldorf Astoria og hann treysti þeim ekki fyrir öryggi sínu. Er Obama bjáni að mati sendiherrans?

Það er næsta hallærislegt að kenna varúð í samskiptum manna og þjóða við kalda stríðið um það bil aldarfjórðungi eftir að því lauk. Önnur viðhorf ríkja nú en þá eins og til dæmis má sjá af því að Japanir hafa ákveðið að hverfa frá stefnu sem þeir hafa fylgt í um 70 ár og bannaði her landsins að búa sig undir annað en sjálfsvörn. Neðri deild japanska þingsins hefur samþykkt lög sem heimila hernum að taka þátt í aðgerðum utan lögsögu Japans sé öryggi þjóðarinnar talið í hættu. Þetta er ekki síst rakið til ótta Japana við ögrandi stefnu kínverskra stjórnvalda.

Fráleitt er að kenna viðbrögð við því sem gerist í samtímanum við kalda stríðið. Ákefð við það minnir aðeins á þá kenningu að herforingjar búi sig jafnan undir að heyja að nýju stríð sem þegar er að baki í stað þess að horfa fram á veginn og tileinka sér nýja hugsun og aðferðir með hliðsjón af breyttum aðstæðu