15.7.2015 18:40

Miðvikudagur 15. 07. 15

Ekki kemur á óvart að lögin sem sett voru til að stöðva verkfall félagsmanna BHM og hjúkrunarfræðinga standist stjórnarskrána eins og staðfest var í héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Að BHM undir formennsku Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra og þingmanns Samfylkingarinnar, hafi höfðað málið og ætli að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til hæstaréttar er aðeins til marks um pólitískt eðli kjarabaráttu BHM. Ætlunin er að nota BHM til að koma höggi á ríkisstjórnina í stað þess að gera kjarasamning fyrir félagsmenn. Nú mun gerðardómur ákveða laun félagsmanna í BHM og hjúkrunarfræðinga sem kolfelldu nýgerðan kjarasamning. Raunar mátti efast um að hugur fylgdi máli þegar forráðamenn hjúkrunarfræðinga kynntu samninginn sem þeir gerðu.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, sat fyrir svörum í gríska sjónvarpinu í gærkvöldi og lýsti fjálglega hvers vegna hann hefði neyðst til að gera samning í Brussel um skuldamál og ströng skilyrði um álögur á þjóðina án þess að vilja það! Hann stendur nú í ströngu í gríska þinginu til að fá skilyrðin samþykkt með atkvæðum stjórnarandstöðunnar. Vinsældir hans eru enn miklar meðal Grikkja, hins vegar er óvíst um líf stjórnar hans.

Löngum hefur verið rætt um hvernig haga skuli rétti þeirra sem fljúga á vegum ríkisins til vildarpunkta. Hafa verið gerðar atlögur í því skyni að afnema þennan rétt en ekki tekist. Nú er enn unnið að málinu. Einstaklingsbundinn réttur leiðir meðal annars til þess að þeir sem hans njóta vilja helst fljúga með vélum Icelandair og afla sér punkta eða njóta uppfærsluréttar á betra farrými séu þeir með kort sem veitir þeim þann rétt.

Nýlega var sagt frá atviki sem varð þegar þingmenn flugu til Íslands frá Washington. Atvikið varð um borð í flugvél frá Wow air. Í fréttum kom fram að Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata og þingmaður, hefði verið í hópnum en flogið með Icelandair. Líkleg skýring á því er flugkort hennar og vildarpunktasöfnun, hún vilji aðeins ferðast með Icelandair, til dæmis í von um að verða færð upp í Saga class þótt alþingi greiði miða á almennu farrými.

Verði reglunum um vildarpunkta breytt lætur Birgitta Jónsdóttir sér vafalaust í léttu rúmi liggja hvort alþingi kaupir fyrir hana miða með Icelandair eða Wow air.