25.7.2015 18:15

Laugardagur 25. 07. 15

Fyrir tveimur vikum ritaði í grein í Morgunblaðið sem lesa má hér. Þar færi ég rök fyrir tengslunum á milli öryggis Íslands og Eystraltsríkjanna. Í dag birtist grein á vefsíðunni politico.eu eftir Andrew A. Michta, prófessor við U.S. Naval War College og félaga í Center for Strategic and International Studies (CSIS) í Washington. Hún hefst á þessum orðum:

„Þótt það virðist enn stangast á við það sem mörgum þyki líklegt hefur hættan á stríði í Evrópu aldrei verið jafnmikil síðan kalda stríðinu lauk. Þá hafa leiðtogar stærstu ríkja Evrópu heldur aldrei verið í eins mikilli afneitun gagnvart pólitískum markmiðum Vladimirs Pútíns – að endurreisa áhrifasvæði Rússa – eða gagnvart því hve hratt stríð í Úkraínu getur tekið á sig mynd stærri átaka á norðaustur væng álfunnar.“

Grein bandaríska prófessorsins lýkur á þessum orðum:

„Að lokum verða vangaveltur um lokamarkið Pútíns aðeins fræðilegar og hið sama á við deilur um hvort hann sé sáttur við núverandi landvinninga í Úkraínu eða vilji meira. Við vitum hins vegar að valda-ójafnvægið á svæðinu sem teygir sig frá Norðurlöndum um Eystrasaltsríkin inn í Mið-Evrópu skapar raunverulega hættu á stríði, án varanlegra herstöðva Bandaríkjamanna og annarra bandalagsþjóða við landamæri NATO verður ekki skapaður nægur fælingarmáttur gegn hugsanlegri aðgerð Rússa, hvort sem hún verður blönduð eða venjuleg [þ.e. áróður, yfirgangur og íhlutun eða hefðbundin beiting hervalds].

Þeim meðal pólitískra forystumanna Evrópu og í hópi greinenda sem hafna enn svo róttækri sviðsmynd má benda á hve fáir töldu fyrir ári líklegt að ráðist yrði inn á Krímskaga, hann innlimaður og Úkraína síðan gerð að vígvelli í stríði. Þegar hugað er að Rússlandi Pútíns nú á tímum er rétt að vænta hins óvænta – eða öllu heldur meira af því sama.“

Þessa greiningu hins bandaríska prófessors, hana má lesa hér, ber að setja í samhengi við það sem fram hefur komið í varnarmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings undanfarna daga þar sem ný-tilnefndir yfirmenn herafla landsins hafa setið fyrir svörum. Þeir hafa allir sagt að eina ríkið sem geti ógnað Bandaríkjunum sé Rússland. Þeir vilja auka bandarískan herafla í Evrópu. Kúvending hefur orðið. Ísland er áfram lykill að öryggi á N-Atlantshafi. Áhrifa alls þessa gætir hér eins og annars staðar innan NATO.