29.7.2015 17:00

Miðvikudagur 29. 07. 15

Eins og ég sagði frá í gær flugum við frá Genf til Nice í gær. Flugvöllurinn í Genf er með sérstakri franskri deild og gengur maður þar inn í Frakkland án nokkurrar skoðunar á vegabréfum enda er Sviss í Schengen-samstarfinu eins og Frakkland.

Ferðafélagi sem kom í dag með lest frá Ítalíu, hann flaug til Mílanó, sagði að landamæravarsla hefði verið í lestinni. Franskur vörður hefði gengið um og beðið fólk um skilríki. Hann horfði á íslenska vegabréfið án þess að skoða það. Ferðalangur frá Ástralíu sýndi sitt vegabréf sem var grandskoðað og hann beðinn um að sýna hvar hann hefði stimpil í því sem sýndi heimild hans til að ferðast til Frakklands, eftir nokkra leit fannst stimpillinn og vörðurinn hélt áfram för sinni.

Þetta sýnir að ríki í Schengen grípa til athugunar á vegabréfum eða skilríkjum ef þau kjósa. Frönsk stjórnvöld kanna ferðir fólks milli Ítalíu og Frakklands til að sporna við ferðum ólöglegs farandfólks sem leitar norður á bóginn eftir að hafa komist, oft við illan leik, yfir Miðjarðarhaf til Ítalíu.

Á baðströndum Ítalíu og Spánar er mikið um blökkumenn sem greinilega stunda ólöglega starfsemi. Þeir hreinsa á brott varning sinn af götumörkuðum þegar þeir sjá lögreglu eða fela sig innan um sólhlífar með dúka eða kókoshnetur sem þeir selja.

Engir farandsalar sjást hér á ströndinni. Yfirbragð hennar er einstaklega friðsælt og strandlífið er laust við allan átroðning ágengra prangara.

Þróun stjórnmála í Frakklandi ræðst mjög af því að yfirvöldum takist að halda þessu yfirbragði sem víðast í landinu og nú hefur François Hollande forseti sagt að það ráðist af fjölda atvinnulausra hvort hann bjóði sig fram til forseta að nýju árið 2017, honum gengur einstaklega illa að minnka það.