6.7.2015 20:40

Mánudagur 06. 07. 15

Samtal mitt á ÍNN við Arngrím Jóhannsson flugstjóra er komið á netið og má sjá það hér: 

Valéry Giscard d'Estaing, fyrrverandi forseti Frakklands, sem beitti sér fyrir inngöngu Grikklands í ESB árið 1981 segir að nú eigi að „gefa Grikkjum frí“ frá evrunni eins og hann orðar það í samtali við vikuritið l‘Express í dag. Hann segir að þeir sem fara með stjórn Grikklands og hafa gert síðan í þingkosningunum í ársbyrjun hafi unnið gegn markmiðum Maastricht-sáttmálans um efnahags- og myntsamstarfið. Það snúist ekki aðeins um sameiginlega mynt heldur einnig efnahagsstefnu sem grískir ráðamenn hafi haft að engu eftir að þeir komust til valda að kosningum loknum.

Hann sakar frönsk stjórnvöld um að sýna Syriza, stjórnarflokki Grikklands, of mikinn velvilja. Flokkurinn hafi vissulega fengið lögmætan stuðning kjósenda en hann hafi fylgt annarri efnahagsstefnu en önnur evru-ríki. Strax hefði átt að bregðast við því á þann veg að Grikkir hyrfu stig af stigi úr evru-samstarfinu. Franska stjórnin hafi verið of eftirgefanleg gagnvart Grikkjum en nú hvíldu 700 evrur á hverjum Frakka vegna lána til Grikkja. Þjóðverjar hafi hins vegar fylgt skynsamri stefnu. Það hafi til dæmis verið dapurlegt að Frakkar beittu sér gegn því fyrir tveimur árum að Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, yrði formaður evru-ráðherrahópsins. Hann hafi verið hinn langhæfasti en samt hafi Frakkar beitt sér gegn honum. Það hafi verið alvarleg pólitísk mistök.

Yanis Varoufakis sagði af sér embætti fjármálaráðherra með þeim orðum að hann ætlaði ekki að íþyngja viðmælendum Grikkja með návist sinni. Í stað hans er Euclid Tsakalotos orðinn fjármálaráðherra, fyrrverandi staðgengill Varoufakis í skuldaviðræðunum. Hann er þjóðhagfræðingur og fylgir „að sjálfsögðu“ stefnu Keynes um aukinn ríkisútgjöld segir Michael Martens, fréttaritari Frankfurter Allgemeine Zeitung í Grikklandi.

Hann segir æviágrip Tsakalotos svipað og margra annarra ráðamanna innan róttæku vinstri hreyfingarinnar Syriza: Þeir ólust upp hjá vel stæðum foreldrum, gengu í bestu háskóla heims og hafa aldrei sjálfir kynnst fjárhagserfiðleikum. Til þessa hafa þeir aðeins litið á stjórnmál með augum fræðimannsins. Tsakalotos fæddist í Rotterdam 1960, hann lagði stund á hagfræði, stjórnmál og heimspeki í Oxford þar sem hann varð doktor árið 1989. Síðan kenndi hann í háskólunum í Kent og Aþenu, skrifaði nokkrar bækur og margar greinar í fræðirit, fjöldi vísana í heimildir séu fleiri en fjöldi lesenda skrifanna.