3.7.2015 21:40

Föstudagur 03. 07. 15

Alþingi lauk störfum fyrir sumarleyfi í dag, við þinglok sagði Einar K. Guðfinnsson þingforseti: „Samþykkt hinna svokölluðu haftafrumvarpa fyrr í dag verð[ur] að teljast í senn mikilvægasta og merkasta löggjöf þessa þings og þótt lengra sé leitað. Í þeim skilningi er 3. júlí 2015 augljóslega sögulegur dagur“.  Lagasetningin væri einhver mikilvægasta varðan á leið þjóðarinnar til framtíðar út úr hinum miklu efnahagsáföllum. Nú gæti þing og þjóð horft til nýrra verkefna á komandi árum.

Þingforseti harmaði gang mála á þinginu. Hann gæti ekki leynt vonbrigðum sínum, persónulegum vonbrigðum, vegna þess að starfsáætlun þingsins hefði ekki staðist. Þá sagði hann:

„Það var rauður þráður í máli flestra ræðumanna í eldhúsdagsumræðunum í fyrrakvöld, jafnt stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, að endurskoða þyrfti vinnubrögðin hér á Alþingi. Þetta var einkar eftirtektarvert. Nú vil ég taka þingmenn á orðinu. Það er mikilvægt að bregðast við og vinna rösklega og markvisst að því að gera breytingar, sem ég veit að þingmenn í hjarta sínu óska eftir. Verði allir alþingismenn og ráðherrar tilbúnir að leggja sitt af mörkum til þeirrar endurskoðunar hef ég trú á því að góðir hlutir gerist. En þá dugar ekki að skyggnast bara eftir flísinni frægu í auga náungans. Við þurfum öll, undanbragðalaust, að líta okkur nær.“

Einar K. Guðfinnsson taldi sjálfstætt og óumflýjanlegt verkefni að breyta þeirri stjórnmálamenningu sem hvíldi eins og farg á þinginu. Það stæði engum nær en þingmönnum sjálfum. Varpaði hann fram þeirri hugmynd að forustumenn flokka eða fulltrúar þeirra færu yfir þennan þátt sérstaklega í því skyni að sammælast um leiðir til að vinna bót á honum.

Ekki er unnt að óska alþingi annars en vilji forseta þess rætist. Lengra verður tæplega gengið á braut upplausnar í þingstörfum en gerðist á þinginu sem nú er lokið. Mörg þúsund ræður voru fluttar undir dagskrárliðum um annað en efnislega úrlausn mála. Það er rétt hjá þingforseta að ræður á eldhúsdeginum báru vott yfirbótar. Hvort hún er meira en orðin tóm kemur í ljós. Í því efni er við enga aðra að sakast en þá sem sitja á alþingi án tillits til stjórnmálaflokks.