4.7.2015 19:30

Laugardagur 04. 07. 15

Der deutsche Finanzminister Wolfgang Schäuble ist das Feindbild Nummer 1 in Griechenland. Doch die Deutschen hasst niemand.

„Þýski fjármálaráðherra Wolfgang Schäuble er óvinur nr. 1 í Grikklandi. Enginn hatar þó Þjóðverja,“ segir í upphafi aðalfréttar á vefsíðu Frankfurter Allgemeine Zeitung síðdegis í dag, daginn fyrir afdrifaríka þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi.

L'avenir de l'Europe se joue à Athènes

L'issue du référendum grec de dimanche 5  juillet est totalement incertaine, selon les ultimes sondages. Les deux camps se sont mobilisés jusqu'au bout.

Franska blaðið Le Monde  gaf úr sérstakt blað í dag með ofangreinda fyrirsögn yfir þvera forsíðu: Framtíð Evrópu í húfi í Aþenu. Í upphafi forsíðufréttarinnar segir: „Úrslit grísku þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru algjörlega óljós ef marka má síðustu kannanir. Báðir aðilar berjast til þrautar.“  

Segi meirihluti Grikkja já er líklegt að hið sama gerist í Grikklandi og þegar George Papandreou hrökklaðist frá völdum að til verði kallaðir menn sem eru á sömu bylgjulengd og Brusselmenn, fyrrverandi embættismenn ESB, og þeim verði falið að festa Grikki í þeirri umgjörð (fjötrum?) sem ráðamönnum ESB þóknast.

Segi meirihluti Grikkja nei hefst lagaþræta um réttarstöðu þeirra og túlkun á ákvæðum sáttmála ESB um að ESB-ríki með evru sé evru-ríki til frambúðar og ekki sé unnt að breyta því. Fer Grikkland tímabundið úr ESB? Eða varanlega?

Could Greece become the European Venezuela? Getur Grikkland orðið evrópskt Venezúela? spyr breska blaðið The Daily Telegraph í fyrirsögn laugardaginn 4. júlí. Í frásögninni sem fylgir kemur fram að tengsl milli stjórnvalda í Aþenu og Caracas, höfuðborg Venezúela, hafi orðið náin eftir að róttæka vinstra bandalagið Syriza komst til valda í Grikklandi. Ráðamenn landanna sameinist í ástríðu í þágu sósíalisma og fyrirlitningu í garð „ný-frjálshyggjumanna“. Þegar Hugo Chavez, leiðtogi sósíalista, var borinn til grafar í Caracas var Alexis Tsipras þar og eftir að hann varð forsætisráðherra hefur hans verið beðið sem opinbers gests enda fögnuðu Chavistar sigri hans með þeim orðum að „ferskir pólitískir vindar“ blésu í Evrópu.

Hver sem úrslitin verða í Grikklandi stendur ESB á tímamótum. Einni aðildarþjóð er misboðið vegna miðstýringar sem sviptir hana úrræðum til að leysa eigin vanda á eigin forsendum. Leið hinna ráðandi afla innan ESB felst ekki í að losa um tökin heldur herða þau.