8.7.2015 23:55

Miðvikudagur 08. 07. 15

Í dag birtist versta skoðanakönnun fyrir Samfylkinguna síðan flokkurinn var stofnaður árið 2000. Af því tilefni skrifar Björgvin G. Sigurðsson, fyrrv. framkvæmdastjóri og ráðherra flokksins, á Pressuna:

„Eru þetta síðustu dagar Samfylkingarinnar? Getur formaðurinn Árni Páll Árnason náð flokknum á flug? Svarið við báðum spurningunum er að mínu mati afgerandi: Flokkurinn tekur flugið á ný, enda frjálslynd jafnaðarstefna klassísk pólitík sem hefur aldrei átt meira erindi en nú og jú Árni getur það. Til þess þarf hann auðvitað stuðning innan flokks og utan, og finna að hann hefur þann stuðning.“

Á landsfundi Samfylkingarinnar á liðnum vetri var Árni Páll endurkjörinn formaður með aðeins eins atkvæðis mun. Hann fann ekki þann stuðning innan flokksins sem Björgvin G. telur flokknum til bjargar. Árni Páll hefur komið fram í fjölmiðlum undanfarið og viðurkennt hve flokkurinn stendur illa og var þó ekki fylgið þá orðið undir 10% eins og það mælist nú.

Árni Páll hefur ekki burði til að lyfta flokknum á flug. Fylgið hefur fallið í réttu hlutfalli við framgöngu þingmanna hans undanfarið en af gögnum alþingis má ráða að Össur Skarphéðinsson er athugasemdakóngur síðasta þings. Ekki hefur það bætt stöðu flokksins að hann hafi látið ljós sitt skína svona oft í ræðustólnum á þingi.

Að Björgvin G. skuli varpa fram spurningu um hvort þetta séu síðustu dagar Samfylkingarinnar segir í raun allt sem segja þarf um stöðu flokksins. Hann er að renna sitt skeið í núverandi mynd.