20.7.2015 23:40

Mánudagur 20. 07. 15

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, var ráðherra í ríkisstjórninni sem vann að aðild Íslands að ESB án þess að hann vildi það. Hann minnir þannig dálítið á þann hluta grískra vinstrisinna innan stjórnarflokksins Syriza sem semur um afarkosti við ESB án þess að vilja það en  flokkurinn og formaður hans, Alexis Tsipras, knýr samt á um aðild að evru-samstarfinu þrátt fyrir hörmungar sem því fylgja.

Ögmundur segir á vefsíðu sinni í dag:

„Síðastliðinn föstudag fékk ég bréf frá annarri grískri vinkonu minni sem er þingmaður stjórnarflokksins, Syriza. Hún sagði að reiði væri ríkjandi, ekki síst innan Syriza. Mörgum þar fyndist ríkisstjórnin og þar með flokkurinn, hafa gengið alltof langt í undanlátssemi  við evrópska auðvaldið og erindreka þess. Margir væru reiðir og leiðir. Kannski væri depurð rétta orðið.

Ég svaraði því til að dagur kæmi eftir þennan dag. Grikkir hefðu með framgöngu sinni boðið fjármagninu byrginn. Það hefðu þeir gert hver svo sem nú yrði framvindan. […]

Auðvitað er nú  hætt við sundrungu innan Syriza. Það má hins vegar aldrei verða takmark í sjálfu sér að halda þeim flokki saman sem stofnun heldur að fylkja liði um þær hugsjónir sem hann er myndaður um. Öllu gildir nú samstaða um þessar hugsjónir. Ef forysta Syriza ber gæfu til að skilja mikilvægi þessa  mun sá flokkur styrkjast og dafna. Opin lýðræðisleg umræða innan Syriza um grundvallarstefnumarkmið flokksins og skyldra félagslegra afla mun halda hinum róttæku fánum blaktandi sem aldrei fyrr og kveikja í brjóstum okkar viljann til að brjótast út er þeirri herkví sem kapítalisminn hefur leitt okkur í allar götur frá því að æðstu prestar nýfrjálshyggjunnar hófu trúboð sitt í byrjun níunda áratugar síðustu aldar.“

Trúir Ögmundur þessu eða veit hann ekki betur? Ríkisstjórn Grikklands stendur höllum fæti og Syriza er á barmi þess að klofna. „Hinni evrópsku leið“ sem Ögmundur aðhyllist hefur verið hafnað á evru-svæðinu. Podemos, spænski systurflokkur Syriza, tapar fylgi í skoðanakönnunum. Róttækir vinstrisinnar, skoðanabræður Ögmundar, eru ráðalausir eftir að eina stjórnin sem þeir styðja innan ESB hefur ákveðið að ganga erinda auðvaldsins.